Hollenskir rannsakendur hafa hugsanlega fundið leifar af rússnesku BUK-flugskeyti í flaki malasísku farþegaþotunnar sem skotin var niður yfir Austur-Úkraínu í júlí í fyrra. Rússar hafa alltaf þvertekið fyrir það að hafa skaffað vopnið sem grandaði flugi MH17.
Flug MH 17 frá Amsterdam til Kúala Lúmpur var skotið niður þann 17. júlí 2014. Engin um borð komst lífs af, eða 298 manns. Nokkur óvissa hefur ríkt um hver grandaði þotunni en báðar fylkingar í átökunum í Úkraínu höfðu ítrekað skotið niður hernaðarflugvélar andstæðra fylkinga.
Bandaríski herinn og sá þýski hafa gögn um að flugskeyti hafi verið skotið af jörðu niðri af landsvæði undir stjórn aðskilnaðarsinna. Þá hafa myndbönd og myndir af rússneskum þungavopnum komið upp á yfirborðið á þvi ári sem liðið er síðan vélinni var grandað, meðal annars af BUK-flugskeytapalli í nágreni staðarins þar sem vélin féll til jarðar.
Teymi Hollendinga, Úkraínumanna, Malasíubúa, Ástrala, Breta, Bandaríkjamanna og Rússa sem rannsakar flak vélarinnar hefur fundið brot sem „eru sérstaklega áhugaverð“ og er talið að þau séu úr BUK-flugskeyti. Ekki hefur verið sýnt fram á orsakasamhengið þarna á milli og því er ekki hægt á þessari stundu að fullyrða að brotin séu úr skeytinu sem grandaði vélinni.
Teymið fundar nú í Hag í Hollandi þar sem drög að rannsóknarskýrslu eru sett saman. Áætlað er að skýrslan verði gerð opinber í október.
Rússar hafa ítrekað borið af sér sakir um að sjá aðskilnaðarsveitum í Austur-Úkraínu fyrir vopnum, segja allar sendingar til þeirra vera „mannúðaraðstoð“. Alþjóðlegir eftirlitsmenn hafa hins vegar aðra sögu að segja.
Kjarninn fjallaði um peð Rússlands í utanríkismálum og hvernig þeir nota Gazprom til að ná sínu fram, ekki síst í Úkraínu. Auk þess að þeir eru taldir hafa borið vopn í aðskilnaðarsinna og jafnvel sent herlið til að berjast gegn Úkraínuher, tókst þeim að taka til sín Krímskaga, sem hafði verið hluti af Úkraínu síðan Sovétríkin féllu 1991.
Aðskilnaðarsinnar voru fljótir að umkringja brotlendingarstaðinn og voru í kjölfarið gagnrýndir harðlega fyrir að spilla rannsóknargögnum.