Lenya Rún Taha Karim, varaþingmaður Pírata, og Vigdís Häsler, framkvæmdastjóri Bændasamtakanna, funduðu með Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra í morgun þar sem þær ræddu leiðir til að takast á við kynþáttafordóma og útlendingaandúð - bæði kerfislægt og í samfélaginu öllu.
„Þetta var mikilvægt samtal enda hafa síðustu vikur verið erfiðar. Upp hafa komið mál sem vöktu óhug, en vöktu þó líka fólk til meðvitundar. Ég fagna málunum ekki neitt en fagna því að umræðan skuli loksins vera að opnast, bæði hjá stjórnvöldum og í samfélaginu,“ segir Lenya í færslu á Facebook um fundinn með forsætisráðherra.
Í viðtalinu ræddi Lenya einnig um rasísk ummæli Sigurðar Inga Jóhannssonar innviðaráðherra sem hann lét falla um Vigdísi í móttöku sem Framsóknarflokkurinn hélt í tilefni af Búnaðarþingi bændasamtakanna. Vigdís vildi fá forystufólk úr Framsóknarflokknum til að taka mynd með sér þar sem hún „plankaði“ á meðan að það hélt á henni á Sigurður Ingi að vísað til Vigdísar sem „hinnar svörtu“.
Sigurður Ingi baðst afsökunar og fundaði nokkrum dögum síðar með Vigdísi sem birti í kjölfarið færslu á Facebook þar sem hún sagði að þau hefðu átt „hreinskilið, heiðarlegt og opið samtal“. Sagðist Vigdís hafa meðtekið afsökunarbeiðni Sigurðar Inga og að hún hefði upplifað hana sem einlæga. Málinu væri lokið af hennar hálfu. Sigurður Ingi hefur verið kærður fyrir brot á siðareglum Alþingis en hefur ekki tjáð sig meira um málið heldur aðeins vísað í afsökunarbeiðni sína á Facebook.
Lenya segist bjartsýn á framhaldið eftir fundinn með Katrínu í morgun. Aðgerðir voru lagðar til á fundinum sem verða kynntar formlega á næstunni.
„Vinnan við að uppræta fordóma krefst fólks í forystu sem hefur reynslu af þeim og veit því hvernig skal takast á við þá,“ segir Lenya í færslu sinni á Facebook.
Hún segist vilja trúa því að þverpólitísk sátt sé á Alþingi um að draga lærdóm af atburðum síðustu vikna og vinna saman í átt að fordómalausu samfélagi.
„Þessi vinna snertir mig og mörg önnur mjög djúpt, þetta varðar 15% af íslensku þjóðinni og því tel ég verkefnið vera mikilvægara en pólitískar flokkslínur. Við eigum að gera þetta strax og við eigum að gera þetta vel,“ segir Lenya.
Við Vigdís Häsler fórum á fund með Katrínu Jakobsdóttur í morgun. Á fundinum ræddum við leiðir til að takast á við...
Posted by Lenya Rún on Monday, April 25, 2022