Veðurviðvaranir dagsins hafa færst af gulu yfir á appelsínugult eftir að nýjustu spár, sem bárust í snemma í morgun, hafa versnað. „Það viðrar illa til ferðalaga og er fólk hvatt til að huga að lausamunum,“ segja almannavarnir í færslu á Facebook.
Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur segir lægðina verða bæði dýpri og krappari en spáð hafði verið. „Lítur ekki vel út!“ Lægðarmiðjan fari yfir Reykjanesskaga í höfuðborgarsvæðið um hádegi. „Í kjölfar miðjunnar skellur á okkur af fullum þunga V-strengur (e. Sting Jet) hér suðvestanlands. Það versta stendur aðeins í stuttu stund, í rúma klukkustund eða svo,“ skrifar Einar á Facebook í morgun. Hann segir að einnig verði „foráttuhvasst“ á Suðurlandi, einkum við sjóinn og eins suðaustan- og austanlands með suðvestanáttinni.
Vegagerðin var með eftirfarandi viðvörun kl. 9 í morgun:
Brestur á með vestan hvelli á Suðurnesjum og höfuðborgarsvæðinu upp úr kl. 13. Stendur stutt en varasamt verður að vera á ferðinni. Foráttuhvasst verður frá Landeyjum og austur um á Höfn frá kl. 14 til 19 með SV-átt og áberandi byljótt þar fyrir austan s.s. við Hvalnes, allt austur á Reyðarfjörð.
Hvað er appelsínugul viðvörun?
Á vef Veðurstofunar er að finna eftirfarandi skilgreiningu á appelsínugula litnum í viðvörunarkerfi stofnunarinnar: Miðlungs eða miklar líkur eru á veðri sem valdið getur miklum samfélagslegum áhrifum. Veðrið getur valdið miklum samfélagslegum áhrifum. Veðrið getur valdið tjóni og/eða slysum og ógnar mögulega lífi ef aðgát er ekki höfð. Skerðing á samgöngum og innviðum/þjónustu tímabundin/staðbundin. Veður sem þessi verða nokkrum sinnum á ári.
Sjá nánar viðvaranir Veðurstofunnar hér.