Enska kvennalandsliðið í knattspyrnu, sem varð Evrópumeistari síðastliðinn sunnudag, hefur birt opið bréf til Rishi Sunak og Liz Truss, en þau bítast nú um að verða næsti leiðtogi Íhaldsflokksins í Bretlandi og þar af leiðandi næsti forsætisráðherra.
Í bréfinu, sem allir 23 leikmenn liðsins skrifa undir, benda leikmennirnir, sem kallast ljónynjunnar með skírskotun í ljónin þrjú í merki enskra knattspyrnulandsliða, á að einungis 63 prósent stúlkna í Englandi eigi kost á því að spila knattspyrnu á skólatíma. Auk þess bjóða 40 prósent skóla upp á æfingar utan hefðbundins skólatíma. Hlutfall þeirra drengja sem hafa aðgengi að fótboltaiðkun í gegnum skóla landsins er mun hærra.
Ljónynjurnar segja að Evrópumeistaratitillinn hafi einungis verið upphafið. Þær vilja að allar ungar stúlkur geti spilað knattspyrnu í skólum landsins. „Raunveruleikinn er sá að við erum að veita ungum stúlkum innblástur til þess að spila knattspyrnu, en margar þeirra fars svo í skólann og fá ekki tækifæri til að spila. Þetta er eitthvað sem við upplifðum allar þegar við vorum að alast upp. Við þurftum oft að hætta að spila. Þess vegna bjuggum við til okkar eigin lið, ferðuðumst um landið endanna á milli og þrátt fyrir að líkurnar væru ekki okkur í hag þá héldum við áfram að spila knattspyrnu.“
"We see this as only the beginning."
— Lionesses (@Lionesses) August 3, 2022
An open letter from our #Lionesses... pic.twitter.com/Ty9kA7zgGa
Í bréfinu segir að kvennaknattspyrna hafi vaxið mikið, en að langur vegur eftir. Liðið biðlar því til Sunak og Truss, og ríkisstjórnarinnar sem annað hvort þeirra mun mynda, að tryggja að allar stúlkur hafi aðgang að knattspyrnu að minnsta kosti tveimur klukkutímum á viku. „Við ættum ekki bara að vera að bjóða öllu stúlkum upp á að spila knattspyrnu, heldur ættum við líka að fjárfesta í og styðja við kvenkyns þjálfara líka.“
Áhorfendamet sett
Enska knattspyrnusambandið, í samstarfi við Barclays-bankann, setti af stað átak í fyrrahaust sem kallaðist „Let Girls Play“. Markmið þess átaks var að 75 prósent skóla í Englandi myndu bjóða upp á knattspyrnu í íþróttakennslu á skólatíma árið 2024 og að 90 prósent þeirra myndu bjóða upp á knattspyrnu sem valkost utan skólatíma.
Átakið fól í sér að haldnar voru æfingar í 1.450 skólum til að ýta undir áhuga stúlkna á knattspyrnu í mars síðastliðnum og vekja athygli á skakkri stöðu milli drengja og stúlkna þegar kæmi að aðgengi að knattspyrnuæfingum. Yfir 90 þúsund stúlkur tóku þátt.
Evrópumót kvennalandsliða, sem fór fram i Englandi, var svo heldur betur ekki til að draga úr áhuga á kvennaknattspyrnu. Þar var hvert áhorfendametið á fætur öðru slegið og á þegar úrslitaleikurinn sjálfur, milli Englands og Þýskalands, fór fram á sunnudag var sett áhorfendamet á Wembley-leikvanginum í London. Aldrei höfðu fleiri mætt á leik í lokakeppni Evrópumóts, hvort sem var hjá körlum eða konum, en alls 87.192 sáu enska kvennalandsliðið vinna sinn fyrsta Evrópumeistaratitil með 2-1 sigri í framlengdum leik. Þar var einnig um að ræða fyrsta stóra titil ensks landsliðs frá árinu 1966, þegar karlalandsliðið varð heimsmeistari, líka á heimavelli.
Fyrra met var sett í úrslitaleik Spánar og Sovétríkjanna á Evrópumóti karlalandsliða árið 1964 þegar 79.115 áhorfendur mættu á völlinn.
Auk þess horfðu 17,4 milljónir manna í Englandi á úrslitaleikinn sem þýðir að hann er sá kvennaknattspyrnuleikur sem dregið hefur að flesta sjónvarpsáhorfendur í landinu frá upphafi. Fjöldinn var næstum tvöfaldur sá sem horfði á undanúrslitaleik liðsins á móti Svíum. Um 5,9 milljonir til viðbótar horfðu á leikinn í streymi auk þess sem stórir hópar fólks söfnuðust saman víða um landið og horfðu á leikinn á svokölluðum „Fan-zoneum“ og öðrum stöðum þar sem fjöldi fólks gat horft á úrslitaleikinn á risaskjám.
Í Þýskalandi horfðu 17,9 milljónir manns á úrslitaleikinn í sjónvarpi. Það er tvöfaldur sá fjöldi sem sá þýska kvennalandsliðið minna Evrópumótið árið 2009.