Loforð fyrirtækja, stofnana og heilu borganna um að ná kolefnishlutleysi er oft ekkert annað en grænþvottur að mati sérfræðinga Sameinuðu þjóðanna. Skýrsla þar sem rýnt er í málið var kynnt á loftslagsráðstefnunni, COP27, í Egyptalandi. Þeir vilja að sett verði skýr viðmið og leiðir um hvernig megi draga raunverulega úr losun og vinna á móti henni.
Skýrslunni er ætlað að draga línu í sandinn. Hingað og ekki lengra eiga falskar fullyrðingar hvað varðar baráttuna gegn loftslagsbreytingum að ganga, segja sérfræðingarnir. Hinar fölsku fullyrðingar villa um fyrir neytendum, fjárfestum og stjórnmálamönnum.
Á loftslagsráðstefnunni í Glasgow í fyrra tilnefndi Antonio Guterres, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, sautján manna teymi sérfræðinga til að rýna í trúverðugleika loforða um kolefnishlutleysi. Sagði hann það nauðsynlegt þar sem áhyggjur hefðu vaknað um falskar fullyrðingar fyrirtækja í þessum efnum.
„Of mörg þessara loforða um kolefnishlutleysi eru lítið annað en innantóm slagorð og ýkjur,“ sagði Catherine McKenna, formaður sérfræðingahópsins og fyrrverandi umhverfisráðherra Kanada er niðurstöður skýrslunnar voru kynntar í Egyptalandi. „Falskar fullyrðingar um kolefnishlutleysi ýta undir aukinn kostnað sem allir þurfa að lokum að greiða.“
Málaferli
Víðs vegar um heiminn er verið að setja strangari reglur um hvaða athafnir manna og framleiðsluvörur geti talist umhverfisvænar. Ekki er nærri því nógu langt gengið í þeim efnum að mati aðgerðasinna í loftslagsmálum sem bent hafa á svik og pretti í málaflokknum.
Og sumar hinna blekkjandi fullyrðinga hafa ratað fyrir dómstóla. Í vikunni hófst í Ástralíu rannsókn á nokkrum málum þar sem fyrirtæki eru sökuð um grænþvott. Eru fyrirtækin sögð hafa ýkt fullyrðingar um jákvæð umhverfisáhrif vara sinna eða starfsemi.
Í október lagði breska fjármálaeftirlitið til að búið verði til regluverk sem fyrirtæki, sjóðir og stofnanir verði að fara eftir til að koma í veg fyrir að neytendur séu afvegaleiddir með fullyrðingum um aðgerðir í loftslagsmálum.
Samkvæmt rannsókn sérfræðinganna er um 80 prósent af öllum útblæstri gróðurhúsalofttegunda á heimsvísu sagður „kolefnisjafnaður“ með einhverjum hætti. Stundum er verið að tala um að búið sé að kolefnisjafna framleiðslu eða starfsemi og í öðrum tilvikum að unnið sé að því.
Sérfræðingateymið setur í skýrslu sinni fram lista af tilmælum til fyrirtækja og annarra til að tryggja að loforð þeirra í loftslagsmálum séu sönn og skili raunverulega einhverju fyrir umhverfið. Þannig benda sérfræðingarnir á að fyrirtæki geti ekki haldið fram kolefnishlutleysi á sama tíma og það ræðst í nýjar fjárfestingar tengdar jarðefnaeldsneyti eða skógareyðingu.
Rakið og hrakið
Thomas Hale, prófessor við Oxford-háskóla og einn af stofnendum verkefnis sem ætlað er að rekja – og hrekja – fullyrðingar um kolefnishlutleysi, segir skýrsluna ákveðið skref en að hún þurfi að komast í almenna umræðu og til stjórnmálamanna eigi hún að verða verkfæri til stefnubreytingar og -mörkunar. „Við verðum að átta okkur á því að flest markmið í átt að kolefnishlutleysi munu ekki verða efnd með sama áframhaldi. Hann segir aðeins helming fyrirtækja sem hann hafi rannsakað hafa vel útfærðar áætlanir um hvernig uppfylla eigi loforð um kolefnishlutleysi. Allt of fáir leggi á sig hina miklu vinnu sem þarf til að raungera markmiðin sem snúast ættu fyrst og fremst um að draga úr losun en ekki binda hana með óljósum aðgerðum.