Logi Bergmann Eiðsson, annar umsjónarmanna Síðdegisþáttarins á K100, er kominn í leyfi frá störfum hjá Árvakri, útgáfufélaginu sem rekur útvarpsstöðina, Morgunblaðið og mbl.is. Frá þessu er greint á mbl.is.
Hann er einn fjögurra manna sem Vítalía Lazareva hefur ásakað um kynferðisbrot. Hún setti fyrst fram ásakanir á hendur þremur mannanna: þeim Ara Edwald, Þórði Má Jóhannessyni og Hreggviði Jónssyni, á samfélagsmiðlum í lok október. Þeir eru allir valdamiklir í íslensku viðskiptalífi.
Auk þess hún hefur sett fram ásakanir um illa meðferð og framkomu gagnvart Arnari Grant, sem hún átti í ástarsambandi við. Vítalia hefur meðal annars sagt Arnar hafa látið sig gera kynferðislega hluti við aðra menn gegn vilja hennar.
Í dag hefur verið greint frá því að allir mennirnir fjórir sem Vítalía nefndi í stöðuuppfærslu sinni í október hafi stigið til hliðar úr störfum sem þeir gegna vegna málsins. Í frétt mbl.is segir að Logi Bergmann hafi svo lýst því yfir í upphafi daglegs síðdegisþáttar sem hann stýrir á K100 að hann væri á leið í leyfi. Hinn umsjónarmaður þáttarins, Sigurður Gunnarsson, spurði Loga hvernig hann hefði það og Logi svaraði:„Ég hef verið betri, en við ætlum að gera hérna útvarpsþátt. Ég hendi einum þætti í loftið núna og svo fer ég kannski í smá frí og við sjáum bara til hvað gerist.“