Sjálfstæðisflokkurinn er stærstur í Reykjavík og meirihlutinn er fallinn. Framsóknarflokkurinn vinnur stóran kosningasigur og fær fjóra borgarfulltrúa, en flokkurinn náði ekki inn manni í kosningunum fyrir fjórum árum.
Framsóknarflokkurinn er sömuleiðis sigurvegari kosninganna á landsvísu þar sem hann tvöfaldar fylgi sitt frá síðustu kosningum og fær 22 fleiri fulltrúa kjörna nú en fyrir fjórum árum, úr um 8,5 prósentum á landsvísu og 45 kjörna fulltrúa í rúm átján prósent og 67 fulltrúa kjörna.
Nýjar kosningareglur hægðu á talningu, sérstaklega í Reykjavík þar sem biðin eftir fyrstu tölum var hvað lengst. Nýju reglurnar eru þannig að gera þarf grein fyrir því hvaða talningarmaður telur hvern bunka. Þegar fyrstu tölur bárust loks klukkan 1.41 var strax ljóst í hvað stefndi: Meirihlutinn féll.
Hér má sjá lokaniðurstöður í nokkrum af stærstu sveitarfélögum landsins en alls var kosið til sveitarstjórna í 62 af 64 sveitarfélögum landsins í gær. Í tveimur sveitarfélögum var sjálfkjörið þar sem einungis einn listi kom fram.
Snúin staða í Reykjavík
Staðan í Reykjavík er snúin. Meirihlutinn er fallinn. Sjálfstæðisflokkurinn er stærstur en missir tvo menn, Píratar bæta við sig manni, Sósíalistar bæta við sig einum manni, Viðreisn tapar einum manni og Miðflokkurinn tapar sínum manni. Staða Vinstri grænna og Flokks fólksins er óbreytt, hvor flokkurinn er með einn borgarfulltrúa. Hvorki Reykjavík, besta borgin né Ábyrg framtíð ná inn manni.
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri sagði eftir að fyrstu tölur voru birtar að núverandi meirihluti ætti að ræða málin á morgun (í dag) og að það yrði eðlilegt skref að ræða við aðra flokka ef meirihlutinn væri fallinn.
Lokaniðurstaða í Reykjavík:
Sjálfstæðisflokkur: 24,5 prósent - 6 fulltrúar
Samfylking: 20,3 prósent - 5 fulltrúar
Framsóknarflokkur: 18,7 prósent - 4 fulltrúar
Píratar: 11,6 prósent - 3 fulltrúar
Sósíalistaflokkurinn: 7,7 prósent - 2 fulltrúar
Viðreisn: 5,2 prósent - 1 fulltrúi
Flokkur fólksins: 4,5 prósent - 1 fulltrúi
Vinstri græn: 4 prósent - 1 fulltrúi
Miðflokkurinn: 2,4 prósent
Ábyrgð framtíð: 0,8 prósent
Reykjavík, besta borgin: 0,2 prósent
Á kjörskrá: 100.405
Kjörsókn: 61,1 prósent
Íbúahópur vann mikinn kosningasigur í Kópavogi en meirihlutinn heldur
Meirihlutinn í Kópavogi, Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur, heldur en Vinir Kópavogs, nýtt framboð sem hefur m.a. lagt áherslu á breytta breytta skipulagsstefnu í bæjarfélaginu, er næststærsti flokkurinn í sveitarfélaginu og fær tvo bæjarfulltrúa.
Sjálfstæðismenn missa einn mann en Framsóknarflokkurinn bætir við sig manni. Vinir Kópavogs fá tvo menn kjörna og Samfylking og Viðreisn missa einn mann hvor en Píratar halda sínum manni. Miðflokkurinn nær ekki inn manni.
Lokaniðurstaða í Kópavogi:
Sjálfstæðisflokkur: 33,3 prósent - 4 fulltrúar
Vinir Kópavogs: 15,3 prósent - 2 fulltrúar
Framsóknarflokkur: 15,2 prósent - 2 fulltrúar
Viðreisn: 10,7 prósent - 1 fulltrúi
Píratar: 9,5 prósent - 1 fulltrúi
Samfylking: 8,2 prósent - 1 fulltrúi
Vinstri græn: 5,3 prósent
Miðflokkurinn: 2,6 prósent
Á kjörskrá: 28.923
Kjörsókn: 59,2 prósent
Fyrrverandi bæjarstjóri snýr aftur í bæjarstjórn eftir 29 ára hlé
Meirihluti Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks í Hafnarfirði heldur en stóru fréttirnar eru þær að Samfylkingin, með fyrrverandi bæjarstjórann Guðmund Árna Stefánsson í fararbroddi, bætir við sig tveimur bæjarfulltrúum. Framsóknarflokkurinn bætir við sig manni en bæði Bæjarlistinn og Miðflokkurinn missa sína bæjarfulltrúa. Viðreisn heldur sínum manni.
Guðmundur Árni, sem verður 67 ára í haust, tilkynnti nokkuð óvænt um endurkomu sína í stjórnmál í janúar. Hann hefur áður verið leiðandi afl í bæjarstjórnarpólitík í Hafnarfirði. Hann sat í bæjarstjórn í tólf ár á síðustu öld, þar af sem bæjarstjóri í sjö. Guðmundur Árni steig upp úr þeim stóli 1993, fyrir 29 árum síðan, og settist á þing í kjölfarið fyrir Alþýðuflokkinn.
Guðmundur Árni mun að öllum líkindum ekki snúa aftur í bæjarstjórastólinn en niðurstöður kosninganna gefa til kynna að Rósa Guðbjartsdóttir verði áfram bæjarstjóri í meirihlutasamstarfi Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks.
Lokaniðurstaða í Hafnarfirði:
Sjálfstæðisflokkur: 30,7 prósent - 4 fulltrúar
Samfylking: 29 prósent - 4 fulltrúar
Framsóknarflokkur: 13,7 prósent - 2 fulltrúar
Viðreisn: 9,1 prósent - 1 fulltrúi
Píratar: 6,1 prósent - 1 fulltrúi
Bæjarlistinn: 4,3 prósent
Vinstri græn: 4,3 prósent
Miðflokkurinn: 2,8 prósent
Á kjörskrá: 21.744
Kjörsókn: 60,4 prósent
Úr tveimur flokkum í fjóra í Garðabæ
Sjálfstæðisflokkurinn fer í fyrsta sinn undir 50 prósent og tapar einum bæjarfulltrúa í Garðabæ.
Garðabæjarlistinn tapar einum manni og fær tvo fulltrúa, en Viðreisn sem klauf sig frá Garðabæjarlistanum og bauð fram sjálfstætt nú fær einnig einn fulltrúa. Framsóknarflokkurinn nær svo einum manni inn í bæjarstjórnina, sem er skipuð 11 fulltrúum.
Fjórir flokkar munu eiga fulltrúa í bæjarstjórn Garðabæjar á komandi kjörtímabili, tveimur fleiri en eftir síðustu kosningar.
Lokaniðurstaða í Garðabæ:
Sjálfstæðisflokkur: 49,1 prósent - 7 fulltrúar
Garðabæjarlistinn: 20,9 prósent - 2 fulltrúar
Viðreisn: 13,3 prósent - 1 fulltrúi
Framsóknarflokkur: 13,1 prósent - 1 fulltrúi
Miðflokkurinn: 3,7 prósent
Á kjörskrá: 13.630
Kjörsókn: 64,1 prósent
Engin óvænt úrslit á Seltjarnarnesi
Engin breyting verður á bæjarstjórninni á Seltjarnarnesi, hvorki frá síðasta kjörtímabili né fjórtán kjörtímabilum þar á undan ef út það er farið. Núverandi meirihluti á Seltjarnarnesi er skipaður fulltrúum Sjálfstæðisflokksins og hefur svo verið um áratuga skeið.
Þrír flokkar voru í framboði: Framtíðarlistinn, sem Karl Pétur Jónsson leiðir, Samfylking og óháðir, sem Guðmundur Ari Sigurjónsson leiðir og Sjálfstæðisflokkurinn undir forystu Þórs Sigurgeirssonar. Þór er fyrrverandi bæjarfulltrúi og sonur Sigurgeirs Sigurðsson, sem sat í bæjarstjórn í fjörutíu ár og var bæjarstjóri (sveitarstjóri) mestan þann tíma. Sigurgeir lést árið 2017, 82 ára að aldri. Útlit er því fyrir að sonur bæjarstjóra sé að verða bæjarstjóri á Seltjarnarnesi.
Lokaniðurstaða á Seltjarnarnesi:
Sjálfstæðisflokkur: 50,1 prósent - 4 fulltrúar
Samfylking og óháðir: 40,8 prósent - 3 fulltrúar
Framtíðin: 9,1 prósent
Á kjörskrá: 3.477.
Kjörsókn: 72,8 prósent.
Framsókn í stórsókn í Mosó
Meirihluti Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna í Mosfellsbæ er fallinn. Framsóknarflokkur bætir við sig gríðarlegu fylgi og fær fjóra menn kjörna í bæjarstjórn. Flokkurinn hefur ekki átt mann í bæjarstjórn Mosfellsbæjar frá árinu 2010. Á kjörtímabilinu á undan, árin 2006-2010, hafði hann einn fulltrúa. Í síðustu kosningum fékk flokkurinn aðeins 2,9 prósent atkvæða.
Sjálfstæðisflokkurinn er með 32,2 prósent fylgi og heldur sínum fjórum mönnum, Vinir Mosfellsbæjar með 13 prósent og fá einn og Samfylking 9 prósent. Vinstri græn sem verið hafa í meirihluta samstarfi með Sjálfstæðisflokki síðustu árin eru með 5,9 prósent og ná ekki inn manni. Bæjarfulltrúum í Mosfellsbæ var fjölgað fyrir kosningarnar og verða nú ellefu í stað níu.
Lokaniðurstaða í Mosfellsbæ:
Framsóknarflokkur: 32,2 prósent - 4 fulltrúar
Sjálfstæðisflokkur: 27,3 prósent - 4 fulltrúar
Vinir Mosfellsbæjar: 13 prósent - 1 fulltrúi
Samfylking: 9 prósent - 1 fulltrúi
Viðreisn: 7,9 prósent - 1 fulltrúi
Vinstri græn: 5,7 prósent
Miðflokkurinn: 4,9 prósent
Á kjörskrá: 9.422
Kjörsókn: 61,2 prósent
Flóknar meirihlutaviðræður fram undan á Akureyri – Kattaframboðið nær ekki inn manni
L-listi bæjarlisti Akureyrar er stærsti flokkurinn þar í bæ og bætir við sig einum manni og fær þrjá fulltrúa, Framsókn og Sjálfstæðisflokkur halda sínum tveimur mönnum hvor og Samfylkingin sömuleiðis. Flokkur fólksins, sem er að bjóða fram í fyrsta skipti á Akureyri, nær inn einum manni sem og Vinstri græn og Miðflokkurinn. Sjö flokkar náðu kjöri og útlit er fyrir flóknar meirihlutaviðræður.
Bæjarlistinn, Framsóknarflokkurinn og Samfylkingin mynduðu meirihluta eftir kosningarnar 2018 en í september 2020 tilkynntu fulltrúar í bæjarstjórn að ákveðið hefði verið að afnema minni- og meirihluta í bæjarstjórn það sem eftir lifir kjörtímabils. Markmiðið með því var mynda breiða samstöðu vegna sérstakra aðstæðna í kjölfar heimsfaraldurs og í rekstri sveitarfélagsins. Ólíklegt verður að teljast að þessu breiða meirihlutasamstarfi verði haldið áfram nú.
Lokaniðurstaða á Akureyri:
Bæjarlisti Akureyrar: 18,7 prósent - 3 fulltrúar
Sjálfstæðisflokkur: 18 prósent - 3 fulltrúar
Framsóknarflokkur: 17 prósent - 2 fulltrúar
Flokkur fólksins: 12,2 prósent - 1 fulltrúi
Samfylking: 11,9 prósent - 1 fulltrúi
Miðflokkurinn: 7,9 prósent - 1 fulltrúi
Vinstri græn: 7,2 prósent - 1 fulltrúi
Kattaframboðið: 4,1 prósent
Píratar: 3,1 prósent
Á kjörskrá: 14.698
Kjörsókn: 64,1 prósent
Meirihlutinn fallinn í Árborg
Meirihluti Framsóknar, Samfylkingar, Miðflokks og Áfram Árborg er fallinn í Árborg og Sjálfstæðisflokkurinn nær hreinum meirihluta. Bæjarfulltrúum var fjölgað úr níu í ellefu.
Lokaniðurstaða í Árborg:
Sjálfstæðisflokkur: 46,4 prósent - 6 fulltrúar
Framsóknarflokkur: 19,3 prósent - 2 fulltrúar
Samfylking: 15,4 prósent - 2 fulltrúar
Áfram Árborg: 7,9 prósent - 1 fulltrúi
Vinstri græn: 6 prósent
Miðflokkur: 5 prósent
Á kjörskrá: 8.011
Kjörsókn: 63,8 prósent