Það var ansi þungt hljóð í talsmönnum almannavarna og heilbrigðisyfirvalda sem sátu fyrir svörum á upplýsingafundi dagsins, vegna stöðu mála í kórónuveirufaraldrinum. „Við færumst nær þolmörkum ýmissa kerfa,“ sagði Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn og Kamilla S. Jósefsdóttir staðgengill sóttvarnalæknis var nokkuð afdráttarlaus er hún var spurð að því hver staðan gæti orðið ef smitum á Íslandi myndi halda áfram að fjölga verulega næstu vikurnar og ekki yrði gripið í taumana með enn harðari sóttvarnaráðstöfunum.
Hún sagði líklegt að þá yrði smitrakning ómöguleg, með þeim leiðum sem hefðu verið notaðar, en smitrakningin er eitt helsta tólið til þess að hefta útbreiðslu smita í samfélaginu.
„Ef rakning er ómöguleg mun smitum fjölga áfram því þá verður fólk ekki lengur sett í sóttkví sem þarf að vera í sóttkví, þá verða fleiri sem enda í einangrun, fleiri sem veikjast alvarlega og fleiri sem þurfa á Landspítalann. Það eru takmörk fyrir því hvað Landspítalinn getur tekið við [...] Á einhverjum tímapunkti gætum við mögulega lent í því sem aðrir hafa lent í, í þessum heimsfaraldri, að spítalarnir taki ekki við og fólk fái ekki gjörgæsluinnlögn, þó að það þurfi hana. Og það er ekki ástand sem við viljum að verði,“ sagði Kamilla.
Um helmingur innlagna í þessari bylgju hjá óbólusettum
Auk þeirra Víðis og Kamillu var Páll Matthíasson forstjóri Landspítala til svara á upplýsingafundinum og ræddi hann stöðu spítalans nú þegar 18 manns eru inniliggjandi með COVID-19. Fram kom í máli hans að af þeim rúmlega 30 einstaklingum sem hefðu þurft innlögn á spítalann vegna veikinda sinna í þessari nýju bylgju faraldursins hefði um helmingur verið bólusettur.
Vegna persónuverndarsjónarmiða hafa litlar upplýsingar verið veittar um þann hóp sem liggur inni, með tilliti til aldurs, undirliggjandi sjúkdóma eða bólusetningarstöðu.
Í umræðu undanfarinna vikna og daga hafa ýmsir velt því upp hvernig það geti verið jafn mikill vandi fyrir Landspítala og raunin virðist, að taka á móti þeim sjúklingum með COVID-19 sem nú þurfa á innlögn að halda. Páll lýsti því þannig að spítalinn væri við það að færast á neyðarstig, eftir að hafa verið á hættustigi frá því að fyrstu sjúklingarnir fóru að leggajst inn.
Hann sagði þó að það mætti alveg velta því fyrir sér hvers vegna það gæti verið vandi fyrir spítala með 600 rúm þegar 20 manns leggjast inn. Forstjórinn sagði að „hinn eiginlegi bráðaspítali“ hefði um 400 rúm og það væri í rauninni það sem skipti máli í þessu samhengi. Almennt séð væri Landspítali með 95-105 prósent nýtingu legurýma á þessum bráðadeildum þegar alþjóðleg viðmið gerðu ráð fyrir 85 prósent nýtingu. Því væri það vandi að fá þessa tuttugu einstaklinga inn með COVID-19.
Staðan væri líka sú núna, öfugt við fyrri bylgjur faraldursins, að samfélagið væri á fullu og spítalinn hefði því „töluvert af veiku fólki og slösuðu“ sem þyrfti að sinna og síðan væri fráflæðisvandi á spítalanum enn til staðar, en á bilinu 30-40 manns eru núna inniliggjandi að bíða þess að geta útskrifast yfir á hjúkrunarrými, að sögn forstjórans.
Ofan á þetta sagði Páll stöðuna erfiða vegna sumarfría, sem spítalinn hefði hvatt starfsfólk til þess að taka sér. „Það skiptir máli líka, því þá höfum við færri upp á að hlaupa,“ sagði hann, en spítalinn er byrjaður að biðla til fólks um að koma fyrr til baka úr fríi en það hafði áætlað.
Hann setti fram sitt mat á stöðu mála og sagði ljóst að samfélagið þyrfti að huga að því að reyna að toga niður smitkúrvuna, ef Landspítalinn ætti að ráða við ástandið. „Það þarf að ná valdi á þessari bylgju,“ sagði Páll og bætti því við að áfram þyrfti að vinna að því að efla sóttvarnaviðbragð og burðarþol heilbrigðiskerfisins og Landspítalans.
Þurfi að taka ákvörðun um nánustu framtíð
Víðir Reynisson lýsti yfir áhrifum af langtímaáhrifum þess á samfélagið ef að kerfin í samfélaginu færu að bresta, þá með þeim hætti að Landspítalinn gæti ekki sinnt öllum sem þyrftu á bráðahjálp að halda.
„Kerfin hafa ekki brostið eða brugðist og traust fólks á þeim því enn til staðar. Ef að kerfin okkar fara að bresta og við getum veitt þá þjónustu sem við viljum gera, getum ekki haldið uppi því öryggisstigi sem við viljum í samfélagi eins og okkar, þá geta langtímaáhrifin verið af einhverjum allt öðrum toga en við höfum áður séð í þessu. Það er ansi þekkt í krísum í samfélögum þar sem upp koma atvik þar sem menn telja að kerfin hafi brugðist, það hefur gríðarleg áhrif á samfélagið sem slíkt í langan tíma á eftir. Þetta er eitt af því sem stjórnvöld eru að horfa til þessu öllu saman,“ sagði Víðir.
Hann sagði að beðið væri eftir því að afrakstur vinnu við langtímastefnu um hvernig takast ætti á við veirufaraldurinn í bólusettu samfélagi færi að koma fram og sagði mikilvægt að hugsa bæði til framtíðar, en einnig að taka þyrfti ákvarðanir um hvernig skyldi bregðast við því sem væri að gerast þessa dagana.
„Það er ekki í boði í krísum að taka ekki ákvörðun,“ sagði Víðir.