Hæstiréttur í London hefur veitt Bandaríkjastjórn leyfi til að áfrýja að hluta til þeim dómi sem féll þann 4. janúar síðastliðinn að Julian Assange stofnandi Wikileaks skuli ekki framseldur til Bandaríkjanna vegna heilsufarsástæðna. Assange hefur nú dúsað í öryggisfangelsi í Bretlandi í yfir tvö ár.
Kristinn Hrafnsson ritstjóri Wikileaks segir í samtali við Kjarnann að þessi niðurstaða komi ekki á óvart en að auðvitað hafi málið áhrif á Assange.
„Það þarf nú einhvern ofurmannlegan styrk til þess að það geri það ekki. Við þekkjum nú þá sögu hvernig það er að sitja í gæsluvarðhaldi mánuðum saman, hvað þá í þessu tilfelli í rúmlega tvö ár eins og hann hefur þurft að þola núna. Þetta er náttúrulega algjörlega óafsakanlegt í réttarríki. Honum var varpað í mesta öryggisfangelsi Bretlands með hryðjuverkamönnum, morðingjum og ofbeldisfullum glæpamönnum. Og hann er látinn dúsa þar í allan þennan tíma á meðan kerfið er að dunda sér við að tefja framvindu málsins árum saman.“
Efuðust um sérfræðiálit
Kristinn segir að dómurinn í janúar hafi fyrst og fremst snúið að heilsufari Assange og þeirri áhættu sem framsalið myndi skapa honum. „Og eins hitt að þeir höfðu efasemdir um það að bandaríska fangelsiskerfið myndi taka þannig við honum að heilsu hans væri ekki hætta búin. Það liggur fyrir að hann þarf að sæta einangrunarvist á meðan hann bíður réttarhalda í Bandaríkjunum og ef hann er dæmdur, sem allar líkur eru á, þá mun hann þurfa að dúsa í öryggisfangelsi í ákveðið langan tíma um ævina.“
Hann bendir á að Bandaríkjamenn hafi efast um læknisfræðilegt mat á heilsufari Assange og gengið býsna nærri því að höggva að trúverðugleika þeirra sem mátu hann á sínum tíma. „Hitt er að þeir telja sig geta farið mildum höndum og mjúklega í fangelsiskerfinu sínu og að honum sé engin hætta búin ef hann kemur til Bandaríkjanna og er dæmdur.“
Taka skal fram að í leyfinu til áfrýjunar var ekki fallist á að Bandaríkjastjórn gæti áfrýjað á þeim grundvelli að ekki væri mark takandi á álitum sérfræðinga varðandi heilsufar Assange.
Réttarfarslegur skandall
„Það er náttúrulega mjög sorglegt að enn skuli vera haldið áfram þessu skelfilega máli, sem er réttarfarslegur skandall – og farsakenndur sem slíkur,“ segir Kristinn. Málið sé dregið áfram svo mánuðum skiptir og ekkert sé hugað að því að maðurinn sitji í varðhaldi á meðan sem frjáls maður. „Þetta er fáheyrt í bresku réttarkerfi.“
Hann segir að það muni ráðast á næstu dögum hvenær málið verði flutt í réttarsal. „En miðað við gang mála þá verður það væntanlega eftir einhverja mánuði.“
Hvetur íslensk stjórnvöld til að beita sér
Kristinn skoraði á íslenska þingmenn um liðna helgi að láta í sér heyra varðandi þetta mál en þingmenn víðsvegar að úr heiminum hafa látið sig málið varða og mótmælt fangelsun Assange.
„Mér þætti mjög verðmætt að fá þetta inn í umræðuna, ekki síst þegar búið er að varpa ljósi á að þáttur Íslands kemur inn í þessa makalausu sögu,“ segir Kristinn og vísar í umfjöllun Stundarinnar þar sem fram kemur að boð FBI til að hjálpa íslenskur stjórnvöldum árið 2011 að stöðva hóp tölvuhakkara hafi verið blekking til þess að framkalla aðstöðu á Íslandi til að koma böndum á uppljóstrarasamtökin Wikileaks og stofnandann Julian Assange.
Hann hvetur enn fremur íslensk stjórnvöld til að beita sér í þessu máli. „Það væri ánægjulegt ef stjórnvöld tækju þetta upp og gerðu eilítið hreint fyrir sínum dyrum – því ekki er búið að gera upp það mál hvernig íslensk stjórnvöld voru þvæld inn í þennan blekkingarleik sem búinn var til. Það hefur nú verið opinberað að fullu og teygir sig allt frá árinu 2011 fram til 2019.“ Honum finnst alvarlegt að íslensk stjórnvöld hafi látið hafa sig út í málið með þessum hætti.