Útlendingastofnun (ÚTL) hafa borist kvartanir varðandi aðbúnað fyrir fólk á flótta og umsækjendur um alþjóðlega vernd á Ásbrú í Reykjanesbæ frá einstaklingum sem láta sig mál þeirra sem þar búa varða en ekki frá íbúunum sjálfum nema í einu tilviki. Margt af því sem bent hefur verið á byggir á misskilningi, að því er fram kemur í svari ÚTL við fyrirspurn Kjarnans.
UN Women á Íslandi greindi frá því í yfirlýsingu í síðustu viku að þeim hefði borist til eyrna þungar áhyggjur fólks af aðbúnaði og aðstæðum einstaklinga sem hingað hafa leitað að skjóli og eru hluti af búsetuúrræði ÚTL á Ásbrú.
Heyrðu að ungar stúlkur flýðu á milli herbergja og jafnvel út úr húsinu
„Samkvæmt þeim upplýsingum sem UN Women á Íslandi hafa undir höndum eru aðstæður á Ásbrú með öllu óviðunandi. Eldhúsin eru tóm, það vantar leirtau, potta og pönnur og engin rúmföt á staðnum. Ungar stúlkur eru að flýja á milli herbergja og jafnvel út úr húsinu vegna áforma stjórnvalda um að bæta ókunnugum herbergisfélögum í herbergi þeirra. Umsjónarmenn hafa verið að birtast fyrirvaralaust inn í herbergin til að kanna aðstæður fyrir nýja og ókunnuga herbergisfélaga.
Öllum er blandað saman og ekki virðist vera kynjaskipting á milli húsa eða hæða. Konur og börn eru þannig í næsta herbergi við ókunnuga karlmenn. Strangar reglur eru á svæðinu um heimsóknir – til að vernda öryggi íbúa, en á sama tíma hamlar það eftirliti óháðra aðila til að kanna hvort aðbúnaður sé viðeigandi og verklag í lagi,“ segir í yfirlýsingunni.
Stofnunin uppfyllir allar lágmarkskröfur sem gerðar eru til reksturs hótela
Kjarninn sendi fyrirspurn á ÚTL þar sem spurt var hvort þessi lýsing hjá UN Women væri rétt. Í svarinu segir að alla jafna dvelji einstæðir karlmenn ekki í sama húsnæði og einstæðar konur en örfáar undantekningar hafi verið á því síðustu vikur þar sem úrræðin fyrir karlmenn hafi verið fullnýtt.
„Í þessum tilfellum sem þeir hafa dvalið í úrræði með konum er bæði öryggisvörður í húsnæðinu allan sólahringinn og starfsmenn stofnunarinnar á daginn. Þá deila einstaklingar af gagnstæðu kyni ekki herbergi ef ekki eru fjölskyldutengsl þeirra á milli.
Öll búsetuúrræði sem Útlendingastofnun rekur eru með herbergjum líkt og á hótelum eða gistiheimilum og uppfyllir stofnunin allar lágmarkskröfur sem gerðar eru til reksturs hótela og annarra gistirýma, þá eru þau tekin út af þar til bærum eftirlitsaðilum með reglulegu millibili,“ segir í svarinu.
Enginn kemur inn sem ekki á erindi
Varðandi búnað þá fá allir umsækjendur sem koma í þjónustu stofnunarinnar afhentan startpakka sem í er: diskur, glas, skál, hnífapör, pottur, panna, sæng, koddi og lak. Sængin og koddinn eru sambærileg því sem er notað á sjúkrahúsum, það er ekki eru notuð rúmföt heldur skulu sængin og koddinn þvegin reglulega. Það sem startpakkinn inniheldur tilheyrir þeim sem við honum tekur og geyma umsækjendur þessa hluti alla jafna ekki í sameiginlegum eldhúsum/rýmum heldur inni á sínum herbergjum. Önnur eldunaráhöld eru aðgengileg öllum í sameiginlegum eldhúsum, segir í svarinu.
Samkvæmt ÚTL eru úrræði stofnunarinnar öll aðgangsstýrð, það er enginn kemur þar inn sem ekki á erindi þangað nema í samráði við stofnunina. Íbúar fái alla þá hjálp eða aðstoð sem þau eiga rétt á hjá starfsfólki stofnunarinnar í úrræði. Eins sinnir Rauði kross Íslands fataúthlutunum til þeirra og er með opna viðtalstíma og býður upp á félagsstarf.
Eins og fram hefur komið hafa kvartanir borist til ÚTL varðandi aðbúnaðinn á Ásbrú frá einstaklingum sem láta sig mál þeirra sem þar búa varða en ekki frá íbúunum sjálfum nema í einu tilviki. Margt af því sem bent hefur verið á byggir á misskilningi, samkvæmt ÚTL, og vísar stofnunin til fyrri svara um lýsingu hennar á aðstæðum á Ásbrú.
ÚTL hefur brugðist við þeim kvörtunum með því að vinna að því að færa til og búa til pláss inni í öðrum úrræðum til að flytja karlmennina þangað.
Aðstaðan í stöðugri endurskoðun
Kjarninn spurði ÚTL einnig hvort stofnunin ætlaði að endurskoða þá aðstöðu sem hún hefur til að taka á móti flóttafólki eða umsækjendum um alþjóðlega vernd. „Aðstaðan er og hefur verið í stöðugri endurskoðun undanfarna rúma tvo mánuði. Fjöldi umsækjenda um vernd í þjónustu Útlendingastofnunar meira en tvöfaldaðist á örfáum vikum í mars þegar umsækjendum fjölgaði á fordæmalausum hraða. Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið tók þá fljótlega við því hlutverki að afla nýrra búsetuúrræða, eins og sagt var frá í apríl, en Útlendingastofnun mun hætta að sinna þjónustu við umsækjendur um vernd frá og með 1. júlí næstkomandi.
Þau nýju úrræði sem hafa verið tekin í notkun hafa hentað misvel undir starfsemina og þau hefur oftar en ekki þurft að opna með litlum sem engum fyrirvara. Gengið hefur verið í það hratt og örugglega að tryggja að allur nauðsynlegur búnaður sé til staðar sem fyrst,“ segir að lokum í svarinu.