Fjárfestar á markaði í Bandaríkjunum eru að senda Seðlabanka Bandaríkjanna merki um að hann eigi að bíða með að hækka stýrivexti, eftir nærri sjö ára tímabil þar sem þeir hafa verið við núllið. Þetta kemur fram í umfjöllun Wall Street Journal, en nokkur skjálfti á hlutabréfa-, skuldabréfa- og hrávörumörkuðum að undanförnu hefur beint spjótum að yfirlýsingum Janet Yellen, seðlabanastjóra Bandaríkjanna, um að tíminn til að hækka vexti gæti verið á næstu misserum.
Ástæðan fyrir því að ákvörðun seðlabankans um hækkun, eða ekki hækkun, vaxta er beðið með óþreygju er sú að hún þykir vera heilbrigðistvottorð um að nú sé hagkerfi Bandaríkjanna búið að ná formlegum bata eftir niðursveifluna í kjölfar fjármálakreppunnar fyrir sjö árum. Hagtölur í Bandaríkjunum hafa verið góðar að undanförnu, en atvinnuleysi er nú komið niður í fimm prósent, sem er sambærilegt við það sem var áður en fjármálakreppan skall á.
Þrátt fyrir það hefur Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn varað því að hefja hækkunarferli á vöxtum, þar sem heimsbúskapurinn sé að ganga í gegnum óvissutímabil og niðursveiflu á ýmsum mörkuðum, einkum þeim sem eru nátengdir þróun olíuverðs. Það hefur farið lækkandi að undanförnu, og er ekki útlit fyrir að það hækki mikið á næstu misserum.
For the Fed, markets may be flashing a wait sign: http://t.co/cWBTsCKgxS by @greg_ip
— Wall Street Journal (@WSJ) September 15, 2015