82 smit greindust innanlands í gær samkvæmt tölum sem birtust á COVID.is fyrir klukkan 11. Enn er þó verið að greina sýni sem tekin voru í gær og smittalan er því hærri. Meirihluti þeirra 82 smita sem upplýsingar liggja fyrir um er bólusettur. Um þriðjungur hópsins er hins vegar óbólusettur. Í kringum 72 prósent smitanna greindust hjá fólki utan sóttkvíar.
Yfir 4.000 sýni voru tekin innanlands í gær, þar af rúmlega þrjú þúsund svokölluð einkennasýni.
Sem fyrr eru flestir smitaðra í aldurshópnum 18-29 ára eða 320 manns. Um 40 prósent þeirra sem greindir voru með veiruna í gær eru á þeim aldri. Um 30 nýgreindra eru 40 ára eða eldri.
Á átta dögum hefur 141 óbólusettur einstaklingur greinst með veiruna.
Tæplega 2.000 manns eru nú í sóttkví og 685 með COVID-19 sjúkdóminn og í einangrun.
Nýgengi innanlandssmita hefur hækkað hratt síðustu daga og er nú komið í 176,2 á hverja 100 þúsund íbúa. Staðan gæti skilað Íslandi á rauðan lista í litakóðunarkerfi ESB sem stuðst er við þegar takmarkanir eru settar á ferðalög fólks innan ríkja sambandsins. Litakortið verður uppfært síðar í vikunni.