Angela Merkel, kanslari Þýskalands, var í opinberri heimsókn í Moskvu í dag í tilefni hátíðarhalda vegna Sigurdagsins í gær. Merkel hafði verið boðið, ásamt leiðtogum sigurvegara seinni heimstyrjaldarinnar, að vera viðstödd hersýningu rússneska hersins á Rauða torginu en þekktist ekki boðið.
Eftir að hafa lagt blómsveig að leiði óþekkta hermannsins héldu þau Merkel og Vladimír Pútín, Rússlandsforseti, sameiginlegan blaðamannafund þar sem Merkel undirstrikaði mikilvægi samvinnu í alþjóðamálum, sérstaklega í tengslum við átökin í Úkraínu. Frá þessu er greint á Deutsche Welle.
„Við höfum lært af biturri reynslu og erfiðum aðstæðum,“ sagði Merkel á fundinum og hélt áfram: „Og nú verðum við að yfirstíga þessa hindrun [átökin í Úkraínu] á friðsælan hátt með diplómatískum leiðum.“
Vopnahléssamningur var undirritaður i Minsk í Hvíta-Rússlandi í febrúar en síðan hafa átökin haldið áfram. Á föstudag bárust fregnir af því að átökin í Austur-Úkraínu hafi náð nýjum hæðum eftir undirritun samkomulagsins.
Francois Hollande, forseti Frakklands, og Angela Merkel lögðu mikla áherslu á að leiða stríðandi fylkingar að samningaborðinu í vetur til að hægt væri að binda endi á átökin í austurhluta Úkraínu. Þar berst stjórnarher Úkraínu gegn uppreisnarmönnum sem vilja heldur tengjast Rússum í austri.
Pútín lét hafa eftir sér á blaðamannafundinum í dag að hljóðlátara hafi verið í Úkraínu undanfarið og að vopnahléið héldi áfram að vera í gildi „þrátt fyrir ýmis vandræði“. Merkel sagði hins vegar við blaðamenn eftir fundinn með Pútín að enn hafi vopnahlé ekki hafist. „Við höfum ekkert vopnahlé ennþá“.
Viðskiptaþvinganir vesturveldanna gegn Rússlandi og einstaklingum sem tengjast ríkisstjórn Rússlands, Krímskaga eða Úkraínu, halda áfram að kæla samband stjórnvalda í Kreml við vesturveldin. Þvinganirnar hafa haft mikil áhrif á efnahaginn í Rússlandi.
Merkel, sem hefur leikið hlutverk málamiðlara milli Pútíns og vesturheims undanfarna mánuði, var í sinni fyrstu opinberu heimsókn í Rússlandi síðan í febrúar.
Eins og Kjarninn greindi frá í gær þekktust leiðtogar sigurþjóða í seinni heimstyrjöldinni ekki boð Pútíns um að vera viðstödd hersýningu á Rauða torginu í Moskvu í gær, 9. maí, þegar haldið var upp á 70 ára afmæli stríðsloka. „Allir sem ég vildi hitta voru hér,“ sagði Pútín í sjónvarpsviðtali í gærkvöldi. Hann þakkaði þó bandamönnum Sovétríkjanna í stríðinu fyrir „þeirra framlag“ til sigursins á Þýskalandi nasismans.
Rússneski herinn stóð fyrir gríðarstórri hersýningu á Rauða torginu í Moskvu í gær. Enginn leiðtoga vesturveldanna sá sér fært að mæta svo Pútín sat við hlið Xi Jinping, forseta Kína, á meðan sýningunni stóð.