123. Svo mörg voru smitin af kórónuveirunni innanlands í gær. Samkvæmt fyrstu tölum í morgun voru þau 82 en á upplýsingafundi almannavarna og landlæknis kom svo fram að vegna álags hefði ekki verið búið að greina öll þau 4.000 sýni sem tekin voru í gær. Og nú er talan ljós: 123.
Þetta er metfjöldi á einum degi frá upphafi faraldursins. Þann 24. mars í fyrra greindust 106 smit og urðu þau ekki fleiri á einum degi í fyrstu bylgju faraldursins.
Í þriðju bylgjunni síðasta haust urðu þau flest 100 talsins þann 5. október.
Staðan er þó önnur nú hvað alvarleg veikindi varðar. 24. mars lágu sautján sjúklingar á sjúkrahúsi með COVID-19 og tveir á gjörgæslu. Sá fjöldi jókst mikið dagana á eftir og 2. apríl lágu 44 á sjúkrahúsi og 12 á gjörgæslu.
Í dag liggja þrír á legudeildum Landspítalans með COVID-19. Yfir 700 manns eru í eftirliti á COVID-göngudeildinni, þar af á áttunda tug barna.