Mörg þúsund dauðum fiskum hefur skolað á land í Tianjin í Kína, átta dögum eftir að öflugar sprengingar urðu á hafnarsvæði borgarinnar. Sprengingarnar og eldhafið sem læsti sig í vörur á hafnarbakkanum varð að minnsta kosti 114 manns að bana. Fjölmargra slökkviliðsmanna er enn saknað.
Fjölmargir hafa deilt myndum af dauðu fiskunum á samfélagsmiðlum. Þeim hefur skolað á land rúmum sex kílómetrum frá sprengjusvæðinu, á bakka Haihe-ár sem rennur í gegnum borgina. Frá þessu er greint á vef Time-tímaritsins.
Íbúar í borginni óttuðust að vatnið hafi mengast af eiturefnum í sprengingunum en þar er tíunda stærsta höfn heims og gríðarlegt magn vara fer þar um dag hvern. Kínversk yfirvöld hafa staðfest að sprengingarnar hafi orðið í vörugeymslu sem hýsti 40 mismunandi spilliefni. Þar á meðal voru 700 tonn af blásýrusalti (natríumsýaníði). Það er helst notað til gullgreftrar og getur einungis smávægilegt magn eitrað fyrir manneskjum.
42 vatnamælingastöðvar hafa verið settar upp umhverfis hafnarsvæðið þar sem sprengingarnar urðu. Þegar hafa einhverjar stöðvar merkt blásýrusalt í vatninu og á einum stað hefur magn eitursins farið 356 sinnum umfram eðlilegt magn. Hreinsunarstarf er þegar hafið og búið að loka af stór svæði frá fólksumferð.
Þó finnst ekkert blásýrusalt í vatninu þar sem fiskarnir drápust og því er rannsóknin á því hvers vegna fiskarnir drápust enn í gangi. Den Xiaowen, stjórnandi hjá Umhverfiseftirlitsstofnun Tianjin, segir ekki óvanalegt að mikið magn fiska drepist á sumrin. „Þegar hitastigið hækkar hverfur súrefnið úr vatninu og fiskarnir drepast af súrefnisskorti,“ sagði hann á blaðamannafundi í gær.
I got up close to the massive fish die-off in #Tianjin, and now plan to never do anything like that again. #China pic.twitter.com/N1iQWoFHNp
— Dan Levin (@globaldan) August 20, 2015