Seðlabanki Íslands sér ástæðu til að minna á áhættu tengda viðskiptum með sýndarfé. Í frétt á vef bankans vekur Fjármálaeftirlitið athygli á frétt á vef evrópsku eftirlitsstofnananna á fjármálamarkaði sem birtist í vikunni.
Á vef Seðlabankans segir að áhugi almennings á sýndarfé (e. crypto-assets) sé stöðugt að aukast. Dæmi um sýndarfé er til að mynda Bitcoin. „Af því tilefni minna stofnanirnar neytendur á að viðskipti með sýndarfé geta verið mjög áhættusöm og að þau fylgja lögmálum spákaupmennsku. Mikilvægt er að neytendur geri sér grein fyrir áhættunni, þar með talið möguleikanum á því að tapa fjármunum sínum, líkt og kom fram í sameiginlegri aðvörun stofnananna sem var birt í febrúar 2018,“ segir þar enn fremur.
Þá njóti neytendur sem eigi í viðskiptum með sýndarfé ekki góðs af tryggingakerfi eða neytendavernd sem fylgir fjármálaþjónustu þar sem regluverk er til staðar. Von er á að neytendur njóti meira öryggis en í frétt Seðlabankans er sagt að framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hafi lagt fram tillögu að nýrri löggjöf um markaði með sýndarfé. Tillagan sé hins vegar háð breytingum í löggjafarferlinu og neytendur þurfa því enn að bíða eftir þeirri vernd sem breytingin felur í sér.
Líkt og áður segir er áhugi almennings á Bitcoin stöðugt að aukast. Verð rafmyntarinnar náði methæðum síðastliðinn laugardag þegar verð hverrar einingar rafmyntarinnar stóð í tæpum 62 þúsund dölum eða 7,9 milljónum króna. Síðan þá hefur verðið gefið eftir og stendur nú í um 59 þúsund dölum, um 7,5 milljónir króna, á hverja einingu Bitcoin.