Lægri atvinnuþátttaka múslima á breskum vinnumarkaði verður ekki útskýrð með félags- og menningarlegu viðhorfi múslima eða fastheldni þeirra við trúarlega siði. Þetta eru niðurstöður nýrrar breskrar rannsóknar, sem sagðar eru staðfesta að hængur sé á atvinnuþátttöku múslima í Bretlandi, en véfengja niðurstöður eldri rannsókna sem bent hafa til þess að slíkt sé tilkomið vegna menningar- og trúarhátta múslima.
Niðurstöður rannsóknarinnar nýju sýna að bæði múslimskir karlar og konur eru mun líklegri til þess að vera án atvinnu en hvítir, kristnir samborgarar þeirra þegar búið var að leiðrétta fyrir aldri, búsetu, menntun og barneignum. Þá voru niðurstöðurnar einnig skoðaðar með tilliti til trúar, kynjaviðhorfum og borgaralegri þátttöku, en höfundar rannsóknarinnar komust að því að þessir þættir hefðu takmörkuð áhrif á atvinnuþátttöku.
Hins vegar benda niðurstöðurnar til þess að neikvæð viðhorf gagnvart múslimum, sem og þeim sem séu „álitnir“ múslimar vegna litarháttar eða uppruna, sé ein helsta fyrirstaða múslima er þeir sækast eftir atvinnu.
Að því er fram kemur í umfjöllun Guardian er rannsóknin unnin upp úr gögnum sem safnað var á 10 árum með langtímarannsókn á bresku heimilishaldi, UK Household Longitudinal study, sem framkvæmd er á 100 þúsund manns frá 40 þúsund breskum heimilum ár hvert, með persónulegum viðtölum þar sem þátttakendur eru spurðir út í félagshagfræðilega stöðu sína. Meðal þess sem þátttakendur eru spurðir um eru trúarlegar skoðanir og hve sterkar þær eru, hvort þeir taki þátt í félagsstarfi og hvort þeir séu sammála fullyrðingum á borð við að eiginmaður eigi að sjá fjárhagslega fyrir heimilinu á meðan eiginkonan sinni störfum innan veggja heimilisins.
Þannig gátu rannsakendur skoðað hvort ákveðin viðhorf hefðu áhrif á atvinnuþátttöku, og komust að því að þau hefðu takmörkuð áhrif og ekki nægilega mikil til að útskýra þann mikla mun sem mælist á atvinnuþátttöku meðal múslima annars vegar og hvítra og kristinna hins vegar.
Annað sem niðurstöðurnar benda til er að útlit hafi talsverð áhrif á aðgengileika að vinnumarkaðnum. Þannig sé atvinnuþátttaka hvítra múslima á pari við þátttöku annarra þjóðfélagshópa, en trúarlausir arabískir menn hins vegar líklegri til þess að vera án atvinnu. Höfundar rannsóknarinnar telja því að útlit hafi meira að segja en trúariðkun.
Niðurstöðurnar benda því til þess að íslamófóbía sé margþætt og snúi ekki einungis að trúnni sjálfri heldur einnig að litarhætti, menningu og upprunalandi. Þannig sé bæði trú og litarháttur forspárgildi þegar kemur að atvinnuþátttöku karla. Trú sé þó enn helsta forspárgildi í tengslum við atvinnuþátttöku kvenna.