Niðurstaða ríkisstjórnarinnar á fundi sínum í dag var sú að grípa „mjög fast“ inn í og beita hörðum aðgerðum til þess að stemma stigu við útbreiðslu breska afbrigðis kórónuveirunnar innanlands. Margvíslegri starfsemi í samfélaginu verður lokað næstu þrjár vikurnar.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra lögðu áherslu á að það, í blaðamannafundi í Hörpu, að ákveðið hefði verið að grípa til þessara hörðu aðgerða í von um að þær stæðu skemur yfir.
„Með því að stíga fyrr inn og með því að stíga fastar til jarðar getum við látið þetta ástand standa skemur,“ sagði forsætisráðherra.
Hún sagði þetta eindregna niðurstöðu ríkisstjórnarinnar og sú niðurstaða væri undirbyggð af reynslunni frá því í haust, er aðgerðir voru hertar í skrefum. Ákvörðunin væri byggð á miklum samræðum við sóttvarnalækni og tillögum hans.
„Við óttumst það að ef ekki er gripið inn í núna gæti það komið verr niður á rekstraraðilum með því að við þyrftum að ganga lengra síðar og ekki bara ganga lengra heldur í lengri tíma,“ sagði fjármálaráðherra við RÚV að fundi loknum.
Íþróttastarf, sundlaugar, sviðslistir og barir í lás
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra kynnti þær aðgerðir sem gripið er til. Nýjar reglur taka gildi á miðnætti í kvöld og gilda um allt land næstu þrjár vikur. Ljóst er að þær munu hafa mikil og heftandi áhrif á daglegt líf landsmanna.
Tíu manna fjöldatakmarkanir verða meginreglan, en 30 manns mega sækja athafnir á vegum trúfélaga. Einungis börn fædd 2014 og síðar eru undanþegin þessum takmörkunum.
Sundlaugar og líkamsræktarstöðvar verða lokaðar. Sviðslistir þurfa að hætta starfsemi á ný. Íþróttastarf verður sömuleiðis óheimilt, bæði hjá börnum og fullorðnum.
Barir og skemmtistaðir þurfa að loka á ný, en veitingastaðir mega vera opnir til kl. 22 á kvöldin, með takmörkunum.
Margvísleg starfsemi verður þannig stöðvuð, en þó reyndar ekki starfsemi hárgreiðslustofa og snyrtistofa og önnur álíka þjónusta.
Grunnskólum, framhaldsskólum og háskólum verður lokað fram að páskafríi. Leikskólar verða áfram opnir.
Heilbrigðisráðherra greindi frá því á fundinum að tekin hefði verið ákvörðun um að hefja aftur bólusetningu með bóluefninu frá AstraZeneca.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra, Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra, Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra og Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra kynntu þessar hertu aðgerðir á blaðamannafundi í Hörpu.