Bóluefni veita mjög góða vörn gegn COVID-19, er niðurstaða rannsóknar dönsku sóttvarnastofnunarinnar, Statens Serum Institut. Á rannsóknartímabilinu, frá 27. desember í fyrra og til 30. júní í ár var ríflega 1,6 milljón íbúa Danmerkur fullbólusett. Staðfest er að 1.233 af þeim sýktust af COVID-19 eða um 0,08 prósent. „Það er mjög lágt hlutfall og sýnir hversu góða vörn bóluefnin veita,“ segir Troels Lillebæk, prófessor og deildarstjóri við stofnunina. Rannsóknin sýnir ennfremur að þeir fáu sem sýkist fái mildari einkenni en óbólusettir. Mjög fágætt er, að sögn Lillebæk, að bólusettir sem sýkist þurfi á sjúkrahúsinnlögn að halda.
Camilla Foged, prófessor í ónæmisfræði við Háskólann í Kaupmannahöfn, segir í viðtali við Danska ríkisútvarpið að niðurstöðurnar séu gleðilegar. „Auðvitað vill maður alltaf koma í veg fyrir að nokkur veikist,“ segir hún, en að alltaf megi eiga von á að einhverjir sýkist, þrátt fyrir að vera bólusettir. Rannsóknir sýni að bóluefni t.d. Pfizer og Moderna veiti um 95 prósent vörn.
Hún segir að fólk verði að fara varlega milli fyrstu og annarrar sprautu og minnir á að full virkni bóluefna sé ekki að vænta fyrr en tveimur vikum eftir seinni sprautu. Hún beinir orðum sínum sérstaklega til ungs fólks í þessu sambandi.
Rannsóknarniðurstöður Sóttvarnastofnunar Danmerkur eru frá tímabili þar sem Alfa-afbrigði veirunnar, sem fyrst var kennt við Bretland, var allsráðandi í landinu. Delta-afbrigðið, sem fyrst kom upp á Indlandi að því er talið er, hefur síðan þá breiðst hratt út. Og það er enn meira smitandi en Alfa-afbrigðið.
Foged segir rannsóknir sem þegar hafi verið gerðar sýni að bóluefni virki ekki eins vel gegn Delta-afbrigðinu og öðrum. Vörnin sé talin rétt undir 90 prósentum. Svo kunni að fara að fleiri bólusettir eigi því eftir að sýkjast af því afbrigði. Engu að síður er hættan á alvarlegum veikindum mun minni hjá bólusettum en óbólusettum.
Síðustu þrjár vikur hefur Delta-afbrigðið greinst í auknum mæli í Danmörku. Í síðustu viku greindust yfir 1.000 slík tilfelli.