Fyrst kom alfa. Svo beta og þá gamma og delta. Fyrir ári var svo komið að ómíkron og þá fór allt á hliðina. Enn einu sinni. Ómíkron var meira smitandi en fyrri afbrigði SARS-CoV-2 kórónuveirunnar en olli ekki jafn alvarlegum einkennum, sérstaklega ekki þar sem milljónir manna höfðu verið bólusettar gegn veirunni.
Ómíkron, rétt eins og afbrigðin sem það yfirbugaði, er stöðugt að breytast. Þróast. Breytingarnar þurfa að vera ákveðið miklar svo talað sé um nýtt afbrigði og að því er ekki enn komið þótt nú sé hið óþjála undirafbrigðisheiti XBB.1.5 á allra vörum enda bráðsmitandi og jafnvel það mest smitandi hingað til vilja margir meina.
Það er þegar farið að valda usla í Bandaríkjunum og breiðist þar hratt út. Einnig hafa tilfelli greinst í Bretlandi sem og víðar.
Þau einkenni sem XBB.1.5 veldur eru keimlík þeim sem önnur undirafbrigði ómíkron valda. Flestir finna fyrir flensulíkum einkennum, fá hita, kvef og jafnvel hósta.
XBB.1.5 þróaðist út frá afbrigðinu XBB sem hóf að smitast manna á milli í september. Í fréttaskýringu BBC segir að XBB hafi stökkbreytingar sem auðvelda veirunni að komast inn fyrir ónæmisvarnir líkamans. En XBB.1.5 er enn hæfara og getur bundist frumum líkamans ólíkt fyrirrennara sínum. Og þannig getur það smitast hratt frá einum líkama til annars.
Vísindamenn sem BBC ræðir við segja að veiran sé alltaf að þróast og stundum leiði það til þess að henni tekst að komast með auðveldari hætti framhjá vörnum líkama okkar. Þess vegna sé enn mjög mikilvægt að greina smit og raðgreina sýni til að sjá hvað í raun og veru er að gerast.
Mögulega varð XBB.1.5 til í líkama einhvers sem hafði smitast af tveimur ólíkum afbrigðum ómíkron.
Úr 4 prósentum í 40
Um 40 prósent af öllum COVID-tilfellum sem eru að greinast í Bandaríkjunum um þessar mundir eru af völdum XBB.1.5 og er afbrigðið því það útbreiddasta í landinu í augnablikinu. Í byrjun desember voru aðeins um 4 prósent tilfella vegna þess svo augljóslega hefur það nú algjörlega kaffært önnur afbrigði ómíkrón.
Síðustu vikur hefur sjúkrahúsinnlögnum vegna COVID-19 fjölgað víða í Bandaríkjunum og stjórnvöld hafa dustað rykið af COVID-prófum sem þau hvetja fólk með einkenni til að undirgangast.
Líkt og með önnur afbrigði af veirunni hingað verður að teljast líklegt, nær fullvíst, að afbrigðið muni berast landa á milli og til Íslands.
Fólk þarf að vera á varðbergi
Vísindamenn sem BBC ræðir við segja XBB.1.5 ekki vekja sérstakar áhyggjur umfram önnur afbrigði kórónuveirunnar. Að minnsta kosti ekki enn. Fátt bendir til þess að það valdi alvarlegri veikindum en þau sem hafa verið á sveimi síðustu misseri. Verndin gegn veikindum felist aðallega í bólusetningum. Ástæða er þó til að vera á varðbergi, ekki síst hvað varðar viðkvæma hópa, aldraða og fólk með undirliggjandi sjúkdóma, sem hafa ekki fengið jafnmikla vörn og aðrir með bólusetningum sínum.
Enn er margt á huldu um hegðun XBB.1.5 og því þurfa heilbrigðisyfirvöld enn og aftur að vera á tánum. Gríðarlega mikilvægt er að fylgjast með þróun faraldursins á svæðum á borð við Kína þar sem strangar samkomutakmarkanir hafa verið í gildi frá upphafi faraldursins og allt þar til nýverið. Kínversk yfirvöld hafa hins vegar ekki deilt rauntíma upplýsingum um raðgreiningar og útbreiðslu líkt og WHO hefur ítrekað hvatt til. Það hefur orðið til þess að mörg ríki hafa ákveðið að setja ferðatakmarkanir á kínverska ferðamenn, m.a. að skylda þá til að framvísa neikvæðu COVID-prófi.