Í Danmörku tók undirafbrigði ómíkron, BA.2, fljótt yfir upprunalega afbrigðið. BA.2 er enn meira smitandi en virðist ekki valda alvarlegri einkennum. Hins vegar er undirafbrigðið BA.1 útbreiddara á heimsvísu og enn útbreitt í Danmörku og því hafa vaknað spurningar um hvort hægt sé að sýkjast af þeim báðum.
Smitsjúkdómastofnun Danmerkur (Statens Serum Institut) hefur nú birt fyrstu niðurstöður sínar í rannsókn á þessu. Samkvæmt þeim getur sami einstaklingur smitast bæði af BA.1 og BA.2 stuttu síðar en það gerist þó sjaldan.
Undirafbrigðin BA.1 og BA.2 eru bæði kölluð ómíkron því þrátt fyrir að um 40 stökkbreytingum muni á þeim eru þær ekki þess eðlis að Alþjóða heilbrigðismálastofnunin líti svo á að um ný afbrigði sé að ræða. BA.2 greinist nú í 88 prósent tilfella í Danmörku og er einnig að ná yfirhöndinni í Bretlandi, Suður-Afríku og Noregi.
Danska smitsjúkdómastofnunin komst að því í rannsókn sinni, sem enn hefur ekki verið ritrýnd, að þeir sem sýkst hafa af bæði BA.1 og BA.2 séu aðallega ungt og óbólusett fólk. Það hefur aðeins upplifað mild sjúkdómseinkenni og enginn úr þessum hópi hefur látist eða þurft að leggjast inn á sjúkrahús.
1.739 manns í Danmörku greindust tvisvar með 20-60 daga millibili á tímabilinu 21. nóvember til 11. febrúar. Á sama tíma voru 1,8 milljónir smita staðfest í landinu. Talið er að aðeins brot þeirra 1.739 sem greindust tvisvar hafi í báðum tilvikum sýkst af undirafbrigðum ómíkron. Delta var enn á sveimi á þessu tímabili.
Samkvæmt upplýsingum frá WHO er ómíkron lang útbreiddasta afbrigði kórónuveirunnar í heiminum í dag og er nánast það eina sem raðgreinist. Þrjú megin undirafbrigði hafa greinst: BA.1, BA.1.1 og BA.2. WHO segir að BA.2 sé að verða útbreiddara en hin undirafbrigðin en að í heildina fari þó smitum fækkandi almennt á heimsvísu og dauðsföllum vegna COVID-19 sömuleiðis.
Eðli veira er að stökkbreytast stöðug. Þær gera það í hverjum einstaklingi og er þær smitast á milli einstaklinga. Hins vegar er nú talið líklegt, að því er fram kom á upplýsingafundi WHO í gærkvöldi, að hægja muni á stökkbreytingum. Þannig að ný afbrigði muni ekki koma jafn ört fram og hingað til. Skýringin er sú að ónæmi er orðið útbreiddara en áður var, bæði vegna sýkinga og bólusetninga.