Í Morgunblaðinu í dag er birt athugaasemd frá Árvakri, útgáfufélagi Morgunblaðsins, vegna birtingu á heilsíðuauglýsingu í blaðinu í gær. Þar segir: „Vegna mistaka birtist í Morgunblaðinu í gær auglýsing sem ekki var merkt auglýsanda og sem jafnvel hefði mátt ætla af texta auglýsingarinnar að væri frá Lyfjastofnun. Auglýsinguna keypti Bjuti ehf. Beðist er velvirðingar á þessum mistökum.“
Í umræddri auglýsingu heilsíðuauglýsingu, sem kostar í kringum hálfa milljón króna samkvæmt verðskrá Morgunblaðsins, var fólk hvatt til að tilkynna aukaverkanir vegna bólusetningar fyrir COVID-19 til Lyfjastofnunar Íslands, en heimasíða, netfang og símanúmer stofnunarinnar voru öll uppgefin í auglýsingunni. Síðan voru talin upp alls sautján dæmi um meintar aukaverkanir, þar á meðal blinda og andlát.
Undir þeirri upptalningu stóð svo: „Við erum öll almannavarnir“ en enginn skrifaður sérstaklega fyrir auglýsingunni.
Lyfjastofnun Íslands birti stöðuuppfærslu í gær þar sem hún áréttaði að hún stæði ekki á bakvið birtingu auglýsingarinnar. „Upplýsingarnar sem þarna koma fram um hugsanlegar aukaverkanir eru villandi. Allar upplýsingar um mögulegar aukaverkanir er að finna í samþykktum fylgiseðlum sem eru aðgengilegir á vef okkar. Hægt er að tilkynna aukaverkanir á vef okkar en ekki er tekið við aukaverkanatilkynningum í gegnum tölvupóstfang og síma eins og þar kemur fram.“
Lyfjastofnun áréttar að heilsíðuauglýsing í Morgunblaðinu í dag þar sem m.a. er hvatt til þess að tilkynna aukaverkanir...
Posted by Lyfjastofnun on Thursday, May 13, 2021
Rúna Hauksdóttir Hvannberg, forstjóri Lyfjastofnunar, sagði við mbl.is, fréttavef Árvakurs, að útgáfufélagið yrði „auðvitað að bera einhverja ábyrgð á þessu, vegna þess að þarna er verið að blása upp einhvern hræðsluáróður.“
Segist ekki skammast sín
Eigandi félagsins sem keypti auglýsinguna, Bjuti ehf., er Vilborg Björk Hjaltested. Hún er systir Þorsteins Hjaltested, sem erfði jörðina Vatnsenda í Kópavogi á sínum tíma. Kópavogsbær tók hluta hennar eignarnámi árið 2007 og greiddi Þorsteini háar fjárhæðir í bætur. Mikil uppbygging hefur verið á jörðinni síðan. Þrátt fyrir þetta glímdi Þorsteinn við fjárhagserfiðleika fyrir nokkrum árum og hann lést svo, 58 ára gamall, árið 2018.
Í færslu sem hún setti inn 11. maí, þar sem hlekkjað er í frétt RÚV um fjölda bóluefnaskammta sem Ísland hefur tryggt sér, segir hún að allt sé koma í ljós. „Nú er kýrskýrt hvers vegna yfirvöld vildu ekki ná upp hjarðónæmi á eðlilegan hátt í fyrra. Og ná þar með ónæmi fyrir stökkbreytingum líka. Nú er búið að ná sér í áskrift af bólusetningum, 2-3 á ári. Athyglisverð fréttin af konunni sem fékk ekki að koma til USA þrátt fyrir að vera full bólusett, hún var ekki bólusett fyrir því afbrigði sem er að ganga í dag. Hverju er verið að sprauta í fólk? Gæti hugsast að sami leikur sé í gangi eins og með flensubólusetninguna ár hvert? Þá giska þeir á hvaða afbrigði gangi að hausti en eru svo ekkert að draga til baka þegar þeir giska vitlaust.
Í ummælum við eina stöðuuppfærsluna sem sett voru inn í gær er Vilborg gagnrýnd fyrir auglýsinguna sem birtist í Morgunblaðinu og sú auglýsing kölluð „blöff“. Í svari við þeim ummælum segist Vilborg ekki skammast sín fyrir að vera samkvæm sjálfri sér. „Ég vildi að almenningur væri svona gagnrýninn á yfirvöld. Lyfjastofnun hefði átt að sjá til þess sjálf að fólk fengi upplýsingar um áhættuna sem fylgir sprautunni. Eina blöffið er að kalla þetta bólusetningu. Bólusetningar koma í veg fyrir smit, það gerir þessi sprauta ekki, hún er sögð hjálpa fólki í því að verða minna veikt. Er hugsanlegt að sprautaðir verði einkennalausir smitberar.“
Birtu auglýsingu Samherja um áróðursþátt
Þetta er ekki eina auglýsingin sem birst hefur í miðlum Árvakurs nýverið sem hefur orðið fyrir gagnrýni.
Í lok apríl birtist stór auglýsingaborði á mbl.is, sem oft er mest lesni fréttavefur landsins, sem á stóð „Ábyrgðarleysi í Efstaleiti“. Auglýsingin var frá útgerðarfyrirtækinu Samherja og ef ýtt var á hlekkinn þá var farið inn á Youtube-síðu fyrirtækisins og á nýtt myndband sem það hefur gert um Helga Seljan, blaðamann hjá fréttaskýringaþættinum Kveik, og RÚV.
Um er að ræða þrettánda myndbandið sem Samherji hefur látið framleiða til að draga úr trúverðugleika þeirra sem stóðu að umfjöllun um athæfi fyrirtækisins í Namibíu sem sýnd var í nóvember 2019. Helsta skotmark fyrirtækisins í myndböndunum er, auk Helga, Jóhannes Stefánsson, uppljóstrarinn sem er í lykilhlutverki í rannsóknum á hendur Samherji á Íslandi og í Namibíu.
Í nýja myndbandinu er kvartað yfir að niðurstaða siðanefndar RÚV í nýlegu kærumáli Samherja á hendur á annan tug starfsmanna fjölmiðlafyrirtækisins, þar sem Helgi var talinn hafa verið brotlegur við siðareglur vegna fjögurra ummæla sem hann hafi látið falla á samfélagsmiðlum, muni ekki hafa þær afleiðingar að Helga verði gert að hætta umfjöllun um Samherja.
Í texta sem fylgir myndbandi að í ljósi niðurstöðu siðanefndarinnar sé „óhjákvæmilegt að draga þá ályktun að fréttamaðurinn hafi verið vanhæfur til að fjalla um Samherja vegna persónulegrar afstöðu gegn fyrirtækinu og stjórnendum þess.“
Í myndbandinu, sem er í kostaðri dreifingu á Youtube, er einnig kvartað yfir því að RÚV birti „ekki jákvæðar fréttir um Samherja og neitar að fjalla um mistök sín gagnvart fyrirtækinu“.
Stjórn BÍ gagnrýndi birtingu auglýsingarinnar
Stjórn Blaðamannafélagsins, undir nýrri formennsku Sigríðar Daggar Auðunsdóttur, sendi bréf á framkvæmdastjóra og auglýsingastjóra Árvakurs 1. maí, þar sem meðal annars sagði að birting auglýsingarinnar hefði sett blaðamenn mbl.is í „óviðunandi stöðu“ sökum þess að herferð Samherja væri ekki einungis herferð „gegn einum fréttamanni eða einni ritstjórn“ heldur beindist hún gegn „öllum blaðamönnum og öllum ritstjórnum, þar á meðal blaðamönnum á mbl.is.“
Óskaði stjórn BÍ eftir því að stjórnendur Árvakurs myndu taka tillit til þessara sjónarmiða og fleiri til, ef sú staða kæmi aftur upp að auglýsandi óskaði eftir birtingu auglýsingar þar sem vegið væri að starfsheiðri fréttamanns eða fréttamanna.
Tveir trúnaðarmenn starfsmanna á Morgunblaðinu hættu í kjölfarið sem slíkir og blaðamaður Árvakurs sem sat í stjórn BÍ sagði af sér.
Kjarninn hefur þó heimildir fyrir því að rík óánægja hafi verið með birtingu auglýsingarinnar hjá hluta blaðamanna á ritstjórn mbl.is og Morgunblaðsins. Sömu sögu er að segja um auglýsinguna sem birtist um meintar aukaverkanir vegna bóluefna í gær.