Yfirvöld í Bandaríkjunum eru spillt og vinna gegn hagsmunum venjulegs fólks eins og mín. Við þessa fullyrðingu tengir meirihluti Bandaríkjamanna, þar af tveir þriðju hlutar kjósenda Repúblikanaflokksins og 51 prósent frjálslyndra. Þetta eru niðurstöður nýrrar rannsóknar á vegum stjórnmálafræðideildarinnar við Chicago-háskóla.
Þá telja 28 prósent Bandaríkjamanna að fljótlega geti komið til þess að almennir borgarar neyðist til þess að grípa til vopna gegn stjórnvöldum. Meðal byssueigenda telja 37 prósent að komið geti til þessa. 35 prósent kjósenda Repúblikanaflokksins eru þessu sammála en aðeins 20 prósent kjósenta Demókrataflokksins.
Þrátt fyrir réttarhöldin nýtur Trump enn mikils stuðnings meðal repúblikana, sem samkvæmt umfjöllun The Hill hafa meiri áhyggjur af glæpum, verðbólgunni og menntakerfinu en atburðum 6. janúar 2021.
Samkvæmt niðurstöðum rannsóknarinnar töldu 56 prósent þátttakenda kosningar sanngjarnar og nákvæmar, en sú tala fellur niður í 33 prósent þegar litið er til kjósenda Repúblikanaflokksins.
Af niðurstöðunum að dæma er bilið á milli stjórnmálafylkinganna tveggja enn að stækka og hafði fjórðungur þátttakenda slitið vinabönd vegna stjórnmálaskoðana. Yfir 70 prósent kjósenda beggja flokka eru sammála því að kjósendur hins flokksins séu yfirgangsseggir sem vilji þröngva skoðunum sínum upp á þá sem ósammála eru. Þá telur meirihluti þátttakenda að kjósendur hins flokksins séu illa upplýstir vegna þess hvaðan þeir fá upplýsingar og fréttir.
Rannsóknin var framkvæmd í maí og náði til 1.000 skráðra kjósenda í Bandaríkjunum.