Sjálfstæðisflokkurinn er langvinsælasti stjórnmálaflokkur landsins hjá þeim landsmönnum þar sem heimilistekjur eru yfir 1.200 þúsund krónur á mánuði. Hjá þeim hópi segjast 30,5 prósent að þeir myndu kjósa flokkinn ef gengið yrði til kosninga nú. Sjálfstæðisflokkurinn mælist rúmlega tvisvar sinnum stærri hjá þessum tekjuhæsta hópi samfélagsins en næst vinsælasti valkosturinn, sem er Samfylkingin sem nýtur 14,6 prósent fylgi hjá hópnum. Fylgi Samfylkingarinnar hjá þeim sem eru með heimilistekjur yfir 1.200 þúsund krónur á mánuði er það sama og heildarfylgi flokksins mælist sem á meðan að vinsældir Sjálfstæðisflokksins hjá efsta tekjuhópnum eru um 33 prósent yfir heildarfylgi flokksins.
Þetta er meðal þess sem kemur fram í tölum sem Kjarninn hefur fengið hjá MMR og sýna meðaltal síðustu þriggja kannana fyrirtækisins á fylgi flokka, sem gerðar voru frá 30. desember 2020 til 10. mars 2021.
Samanlagt fylgi Sjálfstæðisflokks og Viðreisnar hjá þessum tekjuhópi mælist 44,6 prósent. Til samanburðar mælist heildarfylgi þeirra samanlagt 32,6 prósent.
Píratar og sósíalistar sterkir hjá tekjulágum
Vinstri græn, Píratar og Miðflokkur sigla nokkuð lygnan sjó hjá þeim sem eru með mest á milli handanna og fylgi þeirra þar er svipað því sem mælist þegar öllum tekjuhópum er blandað saman.
Framsóknarflokkurinn er mun óvinsælli hjá tekjuhæsta hópnum en heilt yfir og mælist með 7,6 prósent fylgi innan ahans. Það kemur svo lítið á óvart að Sósíalistaflokkur Íslands mælist með helming heildarfylgis hjá þeim sem eru með 1.200 þúsund krónur eða meira í heimilistekjur, eða 2,1 prósent, og Flokkur fólksins er enn óvinsælli hjá tekjuhæstu landsmönnunum með 1,4 prósent fylgi.
Þegar lægsti tekjuhópurinn, sá sem er með undir 400 þúsund krónur á mánuði, er skoðaður kemur í ljós að Píratar mælast stærsti allra flokka þar með 16,1 prósent stuðning. Sjálfstæðisflokkur, Samfylking og Vinstri græn mælast öll nær jafn stór (13,5 til 13,6 prósent). Sjálfstæðisflokkurinn mælist lengst allra flokka frá heildarfylgi hjá tekjulægsta hópnum, en hann nýtur 40 prósent minni vinsælda hjá tekjulágum en heilt yfir. Þegar stuðningur við flokkinn hjá tekjulægsta hópnum annars vegar og þeim tekjuhæsta hins vegar er borinn saman er munurinn meira en 100 prósent.
Viðreisn og Miðflokkur mælast báðir með stuðning undir heildarfylgi hjá tekjulægsta hópnum en þar njóta bæði Sósíalistaflokkur Íslands (9,5 prósent) og Flokkur fólksins (8,0 prósent) mun meira fylgis en heilt yfir.