Þó svo að námuvinnsla í Litla-Sandfelli í Þrengslum gæti leitt til samdráttar í losun gróðurhúsalofttegunda við sementsframleiðslu, að því gefnu að jarðefnin komi í stað sementsklinkers við þá framleiðslu, þá er verið að færa umtalsverðar fórnir fyrir þann ábata. „Fyrir liggur að framkvæmdin hefur í för með sér mikil neikvæð umhverfisáhrif.“
Þetta kemur fram í nýútgefnu áliti Skipulagsstofnunar á áformaðri námu íslenska fyrirtækisins Eden Mining í Litla-Sandfelli. Fyrirhugað er að vinna allt fellið á þrjátíu árum og flytja jarðefnin, móbergið sem þar er að finna, úr landi.
„Það er mikið inngrip í náttúrufar í Þrengslum að fjarlægja Litla-Sandfell á tiltölulega skömmum tíma eða aðeins 30 árum,“ segir í álitinu. Skipulagsstofnun telur framkvæmdina hafa í för með sér verulega neikvæð áhrif á landslag, vegi og umferð. Um sé að ræða varanleg og óafturkræf áhrif á jarðmyndanir og landslag sem „engin leið er að bæta fyrir með mótvægisaðgerðum af nokkru tagi“.
Stofnunin segir að jafnmikil efnistaka og um yrði að ræða á eingöngu 30 árum setji efnistöku í annað samhengi en verið hefur. Hún bendir á að í Ölfusi sem og í nágrenni höfuðborgarsvæðisins séu nokkrar mjög stórar námur sem efni hefur verið tekið úr í marga áratugi til innanlandsnota. „Áform um algjört brottnám Litla-Sandfells til iðnaðarnota í evrópskum byggingariðnaði setur málið í annað og stærra samhengi,“ skrifar stofnunin. „Ákvörðun um að heil jarðmyndun fái að hverfa á tiltölulega skömmum tíma vegna sementsframleiðslu á alþjóðlegum markaði veltir upp þeirri hugmynd að hvort með þessu sé verið að opna á þá framtíðarsýn að íslenskar jarðmyndanir verði í stórfelldum mæli fluttar út til sementsframleiðslu.“ Skipulagsstofnun telur að slík áform veki frekari spurningar heldur eingöngu hver verði áhrif á náttúrufar viðkomandi svæðis.
Vegurinn þolir ekki flutningana
Verði námuvinnsla Eden Mining að veruleika munu flutningabílar af stærstu gerð aka um Þrengslaveg milli námunnar og Þorlákshafnar mörgum sinnum á dag. Þar yrði efnið unnið í áformaðri verksmiðju þýska sementsrisans Heidelberg Materials og að því loknu flutt sjóleiðina til viðskiptavina í Evrópu.
Skipulagsstofnun telur, með hliðsjón af umsögn Vegagerðarinnar, ekki unnt að hefja stórfellda efnisflutninga úr Litla-Sandfelli um núverandi veg til Þorlákshafnar. Sá vegur uppfylli „engan veginn“ þær kröfur sem gera þarf til þjóðvegar sem er ætlað að anna jafn umfangsmiklum flutningum og Eden Mining ráðgeri.
Tilgangur efnistökunnar í Sandfelli er að sögn Eden Mining að nýta efnið úr fellinu sem staðgönguefni flugösku í sementsframleiðslu. Þannig megi minnka kolefnisspor byggingariðnaðarins.
Efninu úr námunni yrði ekið á vörubílum af „stærstu leyfilegu gerð“ um 14 kílómetra leið til verksmiðjunnar í Þorlákshöfn. Hver bíll myndi flytja 30 tonn af móbergi í hverri ferð og heildarþyngd ökutækis þá verða allt að 49 tonn. Ef reiknað er með að efni sé flutt um 300 daga ársins þá yrðu farnar 111 ferðir á dag, fram og til baka gera það 222 ferðir.
Jarðmyndanir
Í umhverfismatsskýrslu Eden Mining, sem verkfræðistofan Efla vann, kom fram að Litla-Sandfell móberg væri ekki algengt á heimsvísu en hins vegar mjög algengt á Íslandi og er fyrirhuguð efnistaka lítið brot af því móbergi sem finnst á SV-horni landsins. Framkvæmdaraðili mat því áhrif á jarðmyndanir með námuvinnslu nokkuð neikvæð.
Náttúrufræðistofnun benti í umsögn sinni á að móberg væri sérstakt á heimsvísu og hefði hátt verndargildi. Litla-Sandfell sé auk þess ólíkt móbergsfjöllunum í nágrenninu, stuttur móbergshryggur á meðan nágrannafjöllin séu flest móbergsstapar. Ef Litla-Sandfell hyrfi yrði jarðfræðin einsleitari.
Skipulagsstofnun tekur undir með Náttúrufræðistofnun um að móbergsmyndanir hafi mikið verndargildi á alþjóðlega vísu. Móberg, einkum móbergshryggi, megi líta á sem ábyrgðartegund Íslands í jarðbreytileika heimsins. Skipulagsstofnun telur framkvæmdaaðila vanmeta áhrif framkvæmdarinnar á jarðmyndanir. Fyrirhuguð vinnsla á Litla-Sandfelli í heilu lagi, þar sem engum mótvægisaðgerðum verði komið við, muni hafa í för með sér verulega neikvæð áhrif.
Landslag og ásýnd
Í umhverfismatsskýrslu Eden Mining segir að brottnám Litla-Sandfells muni hafa töluverð áhrif á ásýnd frá Þrengslavegi og næsta nágrenni. Fellið sé þó ekki sýnilegt langar leiðir og landslagsheildin verði áfram sú sama, en einu móbergsfelli færra. Áhrif á ásýnd og landslag voru metin talsvert neikvæð.
Í umsögn Náttúrufræðistofnunar Íslands sagði að áhrif á landslag sværu mjög afgerandi. Hún benti á að upp vakni grundvallarspurningar um táknræna og siðfræðilega merkingu þess að áberandi fjall sé fjarlægt í heilu lagi úr íslenskri náttúru.
Skipulagsstofnun telur að veigamestu umhverfisáhrif framkvæmdarinnar verði sjónræn áhrif og áhrif á landslag. „Þó svo að Litla-Sandfell rísi eingöngu um 95 metra yfir umhverfi sitt í Leitahrauni þá er fellið afgerandi kennileiti í landslagi svæðisins,“ segir í áliti stofnunarinnar á framkvæmdinni. „Brottnám þess á tiltölulega skömmum tíma, eða þeim 30 árum sem ætlað er að taki að moka því burt, hefur mikil og óafturkræf áhrif sem engin leið er að bæta fyrir með mótvægisaðgerðum af nokkru tagi.“ Stofnunin telur sjónræn áhrif og áhrif á landslag því verða verulega neikvæð.
Útivist og ferðamennska
Eden Mining mat áhrif námuvinnslunnar á útivist og ferðamennsku nokkuð neikvæð.
Skipulagsstofnun telur hins vegar að þó svo að unnt verði að stunda útivist og heimsækja alla þá staði sem nýttir eru til útivistar, nema Litla Sandfell, þá muni efnistakan hafa í för með sér mikla breytingu á upplifun útivistarfólks. „Nú er svæðið fremur friðsælt og einu athafnirnar sem útivistarfólk verður vart við er umferð á Þrengslavegi.“ Í stað þess yrði stöðug athafnasemi með miklum efnislager við Litla-Sandfell og mikil og hávær umferð vörubíla til og frá fjallinu allan ársins hring. Fyrir vikið myndi upplifun útivistarfólks í umhverfi fellsins gjörbreytast. „Þá verður ótvírætt sjónarsviptir fyrir útivistarfólk af því að fjarlægja Litla-Sandfell sem er afgerandi kennileiti í hraunbreiðunni í Þrengslum.“
Einnig telur stofnunin það rýra upplifun þeirra sem heimsækja Raufarhólshelli „að nánast við hellismunnann verður sífelldur hávaði frá stórum vörubílum“.
Skipulagsstofnun metur því áhrif framkvæmdanna á útivist og ferðamennsku talsvert neikvæð.
Vegir og umferð
Framkvæmdaraðili metur samlegðaráhrif á vegi og umferð með öðrum jarðefnaflutningum um hina fjórtán kílómetra leið milli námu og Þorlákshafnar óverulega neikvæð.
Skipulagsstofnun telur með hliðsjón af umsögn Vegagerðarinnar að núverandi vegur sé þess ekki bær að anna þeirri viðbótarumferð þungra vörubifreiða sem myndi fylgja efnistöku úr Litla-Sandfelli. Nauðsynlegt væri að breikka og styrkja hluta vegarins og auk þess myndi viðhaldsþörf vegarins vaxa verulega með tilheyrandi kostnaði. Þá telur stofnunin að slysahætta myndi aukast verulega. Niðurstaða hennar er sú að áhrif framkvæmdanna á vegi og umferð verði verulega neikvæð.
Áhrif á loftslag
Í umhverfisskýrslu Eden Mining kemur fram að helsti drifkraftur verkefnisins sé að afla efnis í sement sem komi í stað hins kolefnisfreka sementsklinkers. Móbergið þurfi hins vegar að flytja til Evrópu með tilheyrandi kolefnislosun, en kolefnislosun við flutning sé þó mjög lítil í samanburði við losun í framleiðslu á klinker. Í skýrslunni er borinn saman kolefnislosun við flutning á móberginu til sementsframleiðenda í Evrópu og kolefnislosun sem sparast við það að draga úr notkun á klinker. Er það mat fyrirtækisins að heildaráhrif framkvæmdarinnar á loftslag séu verulega jákvæð.
Í umsögn Náttúrufræðistofnunar Íslands sagði að það væri einföld nálgun að telja beint til tekna það magn CO2 sem verður til við framleiðslu sementsklinkers og Umhverfisstofnun benti á að þessi ávinningur væri þegar kominn fram með notkun flugösku í stað klinkersins. Því væri verið að viðhalda ávinningi.
Í matsskýrslunni væru einungis metin áhrif á losun á heimsvísu en ekki neikvæð áhrif á skuldbindingar Íslands í loftslagsmálum. Enginn vafi léki því á að efnisflutningarnir myndu hafa áhrif til aukinnar losunar hér á landi.
Skipulagsstofnun telur að notkun móbergs í stað klinkers við framleiðslu sements feli í sér ótvíræðan ávinning sé horft til samdráttar í losun gróðurhúsalofttegunda. Sá ábati skili sér hins vegar ekki með beinum hætti í losunarbókhaldi Íslands en þar inn færist fórnarkostnaðurinn, þ.e. losun gróðurhúsalofttegunda frá vinnuvélum, vörubílum og að einhverju leyti sjóflutningum móbergsins. Verulegar fórnir yrðu hins vegar færðar hér á landi fyrir þann ábata.