Atlantshafsbandalagið (NATO) hefur ákveðið að styðja loftárásir Tyrklands sunnan landamærana við Sýrland og Írak. Loftárásunum er beint að Íslamska ríkinu (ISIS) en Kúrdar hafa einnig orðið fyrir skæðum árásum Tyrkja. Ákvörðunin var tekin á fundi allra 28 ríkja NATO í Brussel í dag.
Tyrkir boðuðu til neyðarfundar í Brussel í morgun vegna árásana þar sem óskað var eftir frekari stuðningi bandalagsins í átökunum gegn Íslamska ríkinu auk þess sem Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands, brýndi fyrir bandalagsþjóðum að þær skyldu kveða til vopna yrði árás gerð á Tyrkland.
„Við stöndum sameinuð með Tyrklandi,“ sagði Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO, eftir fundinn. Hann hafði við upphaf fundarinns sagt tímabært að ræða „óeirðirnar í dyragættinni til Tyrklands og við landamæri NATO.“
Í aðdraganda fundarins höfðu bæði NATO og Tyrkland sagst fráhverf hugmyndum um að hernaðarbandalagið leggi til sameiginlega krafta sína á landi og í lofti, til að styðja við árásir Tyrkja. Erdogan sagði hins vegar eftir fundinn að Tyrkir hefðu þegar orðið fyrir árásum, til dæmis þegar sjálfsmorðsárás Íslamska ríkisins varð 32 að bana í tyrkneskum bæ norðan landamærana við Sýrland í síðustu viku.
Aðildaríki NATO eru 28 og komu þau saman í höfuðstöðvum bandalagsins í Brussel í morgun. Ísland er meðal aðildarríkja.
Í samþykkt NATO-ríkjanna er kveðið á um að sé árás gerð á eitt aðildarríki muni öll ríkin lýsa yfir stríði og standa með bandamönnum sínum. Erdogan minnti á það: „Ef aðildarríki að NATO veðrur fyrir árás verður NATO að veita alla þá aðstoð sem möguleg er.“
Tyrkir hófu nýlega að bein afskipti af Íslamska ríkinu eftir að hafa átt í erfiðleikum með að aflýsa stuðningi sínum við uppreisnarmenn í Sýrlandi. Árásir Tyrkja hafa ekki síður beinst að hópum Kúrda í norðanverðu Sýrlandi og Írak. Þjóð Kúrda nýtur mun meiri stuðnings meðal Vesturveldanna og í Evrópu en meðal Tyrkja.
Erdogan segir ómögulegt að halda áfram friðarviðræðum við kúrdíska skæruliða en Tyrkir og Kúrdar hafa tekist á í nærri 30 ár. „Við getum ekki haldið áfram friðarviðræðum við þá sem ógna þjóðaröryggi okkar og bræðralagi,“ sagði Erdogan.
Evrópusambandið hefur brýnt fyrir Tyrkjum að leita friðsamlegra lausna í deilum þeirra við Kúrda, jafnvel þó sambandið segist styðja rétt Tyrklands til að verja landamæri sín.
Aðildarríki NATO geta kallað til neyðarfundar fulltrúa allra þjóða NATO ef það telur öryggi sínu vera ógnað. Tyrkir hafa tvisvar kallað til slíks fundar vegna óaldarinnar í Sýrlandi, í bæði skiptin árið 2012, en alls hefur þessi grein samþykktarinnar verið virkjuð fimm sinnum. Erdogan flaug í morgun til Peking í Kína þar sem ráðgert er að hann versli langdræg flugskeyti.