Albert Bourla, forstjóri lyfjafyrirtækisins Pfizer, hrósaði forsætisráðherra Ísraels, Benjamin Netanyahu, fyrir „þráhyggjukennda“ ýtni hans við að tryggja samning við fyrirtækið um bóluefni fyrir Ísraela. „Hann hringdi þrjátíu sinnum í mig,“ sagði Bourla í viðtali við ísraelska sjónvarpsstöð.
Yfir fimm milljónir Ísraela hafa fengið fyrri skammtinn af bóluefninu og tæplega 4 milljónir eru fullbólusettir. Íbúar landsins eru um 9,3 milljónir.
Bourla var í viðtali á sjónvarpsstöðinni Channel 12 fyrr í vikunni og sagði þá m.a. að það væri „mjög viðeigandi fyrir mannkynið“ að eitt land væri valið til rannsókna á virkni bóluefnis Pfizer.
„Ég talaði við nokkra þjóðhöfðingja. Ég talaði við forsætisráðherrann ykkar og hann sannfærði mig um að Ísrael væri rétti staðurinn með réttu aðstæðurnar,“ sagði Bourla. „Mér þótti hreinskilnislega mikið til þráhyggju forsætisráðherrans ykkar koma. Hann hringdi í mig þrjátíu sinnum.“
Hann sagði ísraelska heilbrigðiskerfið einstakt og að Ísrael hefði reynslu af því að fást við krísur.
Í viðtalinu var hann spurður um þá staðhæfingu Netanyahu að aðeins hann gæti tryggt Ísraelum bóluefni og svaraði Bourla því til að fyrirtæki hans gerði samninga við ríki – ekki einstaka leiðtoga. Þingkosningar fara fram í Ísrael 23. mars. „Við gerum ekki samninga við einstök fyrirtæki eða stofnanir. Bóluefnið verður selt öllum löndum – hver svo sem leiðtogi þeirra er.“
Bourla er fæddur í Grikklandi. Foreldrar hans lifðu helförina af. Hann átti að koma í heimsókn til Ísrael í byrjun mars, rétt fyrir kosningarnar, en frestaði för sinni.
Í frétt blaðsins Times of Israelum viðtalið kemur fram að Netanyahu hafi ítrekað sagt að það hafi verið vegna persónulegra samskipta sinna við Bourla sem hinir einstöku bóluefnasamningar við Pfizer voru tryggðir. Gagnrýnt hafði verið að Bourla kæmi til Ísrael svo skömmu fyrir kosningar. Hann segir þá gagnrýni þó ekki hafa verið ástæðu þess að hann frestaði ferðinni. Hún hafi reynst of flókin í framkvæmd vegna útbreiðslu kórónuveirunnar. Hann er ekki enn fullbólusettur og hefur neitað að fá bóluefni á undan þeim sem eru í forgangshópum. „Mitt starf hefur ekkert að gera með pólitík,“ sagði hann og bætti við að hann hefði ekki hug á því að reyna að hafa áhrif á úrslit kosninganna.
Íslensk yfirvöld voru í desember og janúar í viðræðum við Pfizer um að hér á landi yrði gerði fjórða fasa rannsókn á bóluefni fyrirtækisins. Þegar viðræðurnar hófust í desember var nokkur fjöldi smita að greinast daglega en þegar sóttvarnalæknir og fleiri funduðu með fulltrúum Pfizer í febrúar voru nær engin smit að greinast og var það niðurstaða fundarins að rannsóknin myndi því ekki skila því gagni sem að var stefnt.