Niðurstaða atkvæðagreiðslu um nýjan kjarasamning hjúkrunarfræðinga kom þeim Bjarna Benediktsyni, fjármálaráðherra, og Kristjáni Þór Júlíussyni, heilbrigðisráðherra, ekki á óvart. Bjarni telur jafnframt ekki standa lengur til boða að setjast að samningaborðinu.
Hjúkrunarfræðingar höfnuðu nýgerðum kjarasamningi félagsins með 88,4 prósent atkvæða í atkvæðagreiðslu sem lauk á hádegi í dag. Stjórn Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga lítur svo á að samningar félagsins við ríkið séu nú lausir og félagið mun fela lögmanni sínum að meta réttarstöðu félagsins gagnvart ríkinu.
Í samtali við mbl.is sagði Kristján Þór Júlíusson við þessari niðurstöðu hefði mátt búast „eftir umræður síðastliðinna daga“. Hann hafi einnig fengið að heyra það beint frá hjúkrunarfræðingum hversu óánægðir þeir væru með síðasta tilboð ríkisins sem kosið var um. Bjarni talaði á sömu nótum; enginn hefði talað fyrir samningum.
Sú tillaga sem greidd voru atkvæði um var síðasta tilboð ríkisins til Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga (FÍH) áður en lög voru sett á verkfallið í júní. Alþingi fól í kjölfarið gerðardómi að ákvarða laun hjúkrunarfræðinga en FÍH telur honum hafa verið sniðinn ansi þröngur stakkur.
Óvíst er hver næstu skref verða í kjaradeilunni en Ólafur G. Skúlason, formaður Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga (Fíh), sagði í samtali við Kjarnann í dag að það sé vilji félagsins að setjast aftur að samningaborðinu. Bjarni Benediktsson segir það hins vegar ekki lengur standa til boða. Gerðardómur muni halda áfram að fjalla um málið.
„Mín afstaða byggir á því sem var vilji og ætlun löggjafans. Þetta er óskaplega einfalt. Það voru sett lög á verkfallsaðgerðir og fært í hendur gerðardóms að ákveða kjörin ef ekki næðust samningar. Nú liggur fyrir að ekki tókust samningar og þá er alveg skýrt í mínum huga að málið gengur til gerðardóms,“ segir Bjarni í samtali við mbl.is.