Í gær greindust níu einstaklingar með COVID-19 innanlands og var enginn þeirra í sóttkví. Þetta kemur fram í tilkynningu frá almannavörnum. Það þýðir að á síðustu sex dögum hafa 45 verið greind smituð af COVID-19 hér innanlands. Á landamærunum greindust sjö með COVID-19.
Fram kemur í tilkynningunni að ekki sé vitað hversu hátt hlutfall þeirra sem greindust í gær hafi verið bólusettur. Nokkur fjöldi þeirra sem smitast hafa á síðustu dögum hefur verið bólusettur enda hlutfall bólusettra mjög hátt, um 90 prósent.
Eftir daginn í gær eru 379 í sóttkví og 111 í einangrun, að því er fram kemur í tilkynningu Almannavarna. Fleiri munu fara í sóttkví eftir daginn í dag þar sem rakning stendur enn yfir vegna smita gærkvöldsins.
Álagið eykst á COVID-göngudeild
Fjallað var um aukið álag á COVID-göngudeild Landspítalans í kvöldfréttum RÚV í gær. Að sögn Runólfs Pálssonar, yfirmanns deildarinnar hefur álagið aukist mikið síðustu daga eftir að innanlandssmitum fór að fjölga.
Í viðtali við RÚV sagði Runólfur að flestir væru fullbólusettir og enginn alvarlega veikur. „Langflestir eru með mjög væg eða engin einkenni en það eru nokkrir sem eru með umtalsverð einkenni en ekki alvarleg þó. Og við höfum þurft að kalla nokkra inn til skoðunar hérna á Covid-göngudeildinni,“ sagði Runólfur Pálsson yfirmaður COVID-göngudeildar Landspítala í samtali við RÚV.