Ef Norður-Kórea mætir Bandaríkjunum á vígvellinum á ný munu Norður-Kóreumenn tryggja að enginn Ameríkani komist lífs af, segir Kim Jong-un, leiðtogi Norður-Kóreu. 62 ára vopnahléssamningi er nú fagnað í Pjongjang.
Kóreustríðinu lauk aldrei formlega með friðarsamningi heldur hefur vopnahlé ríkt milli Norður- og Suður-Kóreu og bandamanna þeirra síðan 27. júlí 1953. Þá var herlaust svæði meðal annars skilgreint til þess að skilja á milli ríkjanna. Stjórnvöld í Pjongjang hafa alltaf fagnað samningnum sem uppgjöf bandamanna í suðri.
Fólk á götum höfuðborgarinnar Pjongjang fylgdist með ræðum, veifaði fánum og hrópaði sigurorð yfir bandarískri heimsvaldastefnu, meira en hálfri öld eftir að stríiðinu lauk. „Tímabilið þegar Bandaríkin kúgaði okkur með kjarnorkusprengjum er liðið. Bandaríkin eru ekki lengur uppspretta hótana og hræðslu okkar heldur erum við helsta ógn Bandaríkjanna,“ sagði Kim Jong-un í ræðu sem sjónvarpað var í ríkissjónvarpi Norður-Kóreu.
Í gær, sunnudag, hótaði nýr varnarmálaráðherra landsins, Pak Yong Sik, því að stjórnvöld væru nú reiðubúin að berjat gegn Bandaríkjunum þar til enginn væri eftir til að skrifa undir uppgjafarskjal.
Kim Jong-un, þriðji ættliður leiðtoga í Norður-Kóreu, hefur fylgt línu föður síns og afa í áróðursstríði landsins gegn Vesturveldunum.
Bandaríkin vilja semja um kjarnorkuna
Yfirmaður sendinefndar Bandaríkjanna um kjarnorkuáætlun Norður-Kóreu í Seul, höfuðborg Suður-Kóreu, sagði blaðamönnum í dag að Bandaríkin séu tilbúin til að semja um kjarnorkuáætlunina. „Samningurinn við Íran er frábært dæmi um liðleika Bandaríkjanna í samningum og vilja til að vinna með þjóðum sem við höfum átt í langvinnum deilum við,“ sagði Sidney Seiler.
Samningurinn við Íran, sem Bandaríkin gerðu á dögunum, sýni einnig að gatan sé greið vilji Norður-Kórea losna úr diplómatískri og efnahagslegri einangrun, sagði Seiler einnig.
Löndin fimm sem sögulega hafa leitt viðræður um kjarnorkuáætlun Norður-Kóreu, hefur ekki hist formlega að ræða málið í sex ár. Allar þreyfingar um að hittast aftur hafa engu skilað. Löndin fimm eru Bandaríkin, Suður-Kórea, Kína, Japan og Rússland.
Stjórnvöld nyrðra hafa þegar sagt að þau hafi ekki áhuga á samning við Bandaríkin eins og Íran hefur gert.