Stjórnvöld í Norður-Kóreu hafa engan áhuga á að hefja samræður við alþjóðasamfélagið um kjarnorkuáætlun sína, líkt og Íran hefur gert. Liður í því yrði að alþýðulýðveldið á Kóreuskaga gæfi upp hversu öflugt kjarnorkuvígi það hefur.
Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá utanríkisráðuneyti Norður-Kóreu í dag. Þar segir einnig að kjarnorkuáætlunin sé mikilvægt mótvægi gegn utanríkistefnu Bandaríkjanna, sem stjórnvöld í Norður-Kóreu telja fjandsamlega. Frá þessu er meðal annars greint á vef Reuters.
Bandaríkin, Kína, Rússland, Bretland, Þýskaland og Frakkland, auk Evrópusambandsins, gerðu á dögunum samkomulag við Íran um kjarnorku, sem á að koma í veg fyrir að Íranir geti þróað kjarnorkuvopn. Í skiptum fyrir það verður efnahagsþvingunum gegn Íran létt á næstu árum.
„Það er ekki rökrétt að bera saman aðstæður okkar og íranska kjarnorkusamkomulagið því við þurfum að búa við stanslausar hótanir og fjandsamlegar aðgerðir Bandaríkjahers, meðal annars risavaxnar heræfingar og yfirvofandi kjarnorkuárásir,“ segir í yfirlýsingu Norður-Kóreu sem var flutt af ríkismiðlum, en eignuð talsmanni utanríkisráðuneytisins.
Jafnframt segir í yfirlýsingunni: „Við höfum engan áhuga á að frysta eða gefa kjarnorkusprengjurnar okkar einhliða.“ Þá fullyrða stjórnvöld í Norður-Kóreu að þau séu kjarnorkuveldi og að „kjarnorkuveldi fylgja sínum eigin hagsmunum“.
Óvissa um getu Norður-Kóreu
Norður-kóreskt flugskeyti sent á loft í tilraunaskyni.
Síðan 2003 hefur Norður-Kórea ekki verið hluti af samkomulagi alþjóðasamfélagsins um að fjölga ekki kjarnorkuvopnum í heiminum. Árið 2009 fullyrtu stjórnvöld þar að þeim hafi tekist að þróa og framleiða kjarnorkuvopn. Alþjóðakjarnorkumálastofnunin og forstjóri hennar, Mohamed El Baradei, töldu sig viss um að það væri rétt.
Talið er að kjarnorkuvopnabúr Norður-Kóreu sé lítið og frekar einfalt. Auk þess er talið að ríkið búi yfir efnavopnum af einhverju tagi. Upplýsingar um vopnabúr Norður-Kóreu eru að miklu leyti getgátur vegna þess hversu lokað landið er og fá tækifæri eru til að afla upplýsinga. Helstu bandamenn Norður-Kóreu á alþjóðavettvangi eru til að mynda Kínverjar, sem vilja jafnframt halda spilunum þétt að sér hvað varðar hernaðarmátt.
Kraftur þessara kjarnorkusprengja sem talið er að Norður-Kórea hafi tekist að smíða eru, eftir því hver er spurður, á bilinu 6-40 kílótonn að stærð. Til samanburðar þá var kraftur stærstu sprengjunnar sem Bandaríkin prufuðu 15 megatonn.
Flugskeyti Norður-Kóreu eru heldur ekki fullkomin, borið saman við vopnabúr Vesturlanda. Lengsta vegalengd flugskeytis sem getur borið kjarnorkusprengju er talin vera 4.000 kílómetrar. Það mundi þó duga til að senda kjarnorkusprengju á nær alla Síberíu í vestri og norðri, á nyrstu eyjar Indónesíu í suðri og í mitt Kyrrahafið í austri.