Norsk flugfélög hafa sammælst um að hætta að skylda fólk til að vera með grímur um borð í velum þeirra í innanlandsflugi og í flugi til annarra landa Skandinavíu. Þetta var niðurstaða fundar fulltrúa þeirra í dag en aflétting grímuskyldunnar verður að veruleika eftir helgi.
Þann 5. maí í fyrra beindi IATA, alþjóðasamtök flugfélaga, þeim tilmælum til áhafna og flugfarþega að bera grímur í flugi. 18. maí ákvað norska flugfélagið SAS að setja á grímuskyldu og hin norsku flugfélögin; Norwegian, Widerøe og Flyr, fylgdu í kjölfarið.
Grímuskyldan er enn við lýði, rúmu ári síðar, en nú líður hún senn undir lok. Líkt og segir í frétt norska ríkisútvarpsins um málið: Nú getur þú flogið á ný án móðu á gleraugunum þínum.
„Við hlökkum til að geta tekið á móti nýjum og gömlum farþegum okkar með stóru brosi á vör – án grímunnar. Velkomin um borð,“ segir Silje Brandvoll, upplýsingafulltrúi Widerø.
Engar aðgerðir og engin krafa um grímur um borð
Öllum sóttvarnaaðgerðum var aflétt í Noregi 25. september og því er þess ekki lengur krafist af yfirvöldum að farþegar innanlands beri grímur. Það er að sögn Brandvoll, grundvallar breytan sem varð til þess að ákvörðun um afléttingu grímuskyldunnar var tekin af norsku flugfélögunum.
Eins og áður segir nær afléttingin til innanlandsflugs og flugferða innan Skandinavíu. Enn er farþegum skylt að vera með grímu í flugi til Færeyja, Spánar og Bretlands, svo dæmi séu tekin. Brandwoll segir það helgast af reglum á þeim áfangastöðum sem flogið er til. Séu þar í gildi sóttvarnaaðgerðir sem skylda fólk við ákveðnar aðstæður að hylja nef sitt og munn í varúðarskyni vegna faraldursins þurfi farþegar að hlýta því.
Enn skylt að bera grímur á flugvöllum
Talsmaður Norwegian bendir á að enn geti grímuskylda átt við á flugvöllum og það þurfi farþegar áfram að hafa í huga. Þannig er t.d. enn grímuskylda á Gardermoen, stærsta flugvelli Noregs.
Enn er grímuskylda í innanlandsflugi á Íslandi samkvæmt nýjustu reglugerð yfirvalda sem og á öllum öðrum stöðum þar sem ekki er unnt að tryggja 1 metra nálægðarmörk með minniháttar undantekningum.
Á vef Icelandair stendur að allir verði að setja upp andlitsgrímur fyrir flug Icelandair, bæði farþegar og áhöfn. „Nauðsynlegt er að hafa grímuna á sér frá því að gengið er um borð og þar til gengið er frá borði.“