Kórónuveirusmitum fer fjölgandi í Kína og Hong Kong og hafa ekki verið fleiri í tvö ár, þrátt fyrir að sóttvarnaraðgerðir séu hvergi jafn harðar í heiminum.
Flest lönd fylgja þeirri stefnu í dag að „lifa með veirunni“. Annað er uppi á teningnum í Kína þar sem veirunni hefur ekki verið sýnd neitt umburðarlyndi frá því að hún braust fyrst út þar í landi, og í heiminum öllum, undir lok árs 2019. Yfirvöld hafa rekið eins konar núllstefnu (e. zero-tolerance) gegn heimsfaraldrinum og gripið til harðra aðgerða, svo sem útgöngubanns, í hvert sinn sem ný smitbylgja gerir vart við sig.
4.770 smit greindust í Kína síðasta sólarhring. Langflest smitin má rekja til héraðanna Jilin og Liaoning í norðausturhluta landsins. Níu milljónir búa í iðnaðarborginni Sjenjang í Jilin-héraði þar sem allsherjarlokun og útgöngubann tók gildi í öllu héraðinu á mánudag.
Ómíkron reynst núllstefnunni áskorun
Xi Jinping, forseti Kína, hefur lofsamað núllstefnu yfirvalda og segir að með útgöngubönnum og umfangsmikilli sýnatöku hafi Kína farið þá leið í baráttunni við faraldurinn sem virkar best.
Ómíkron-afbrigði kórónuveirunnar hefur hins vegar reynst ákveðin áskorun gegn núllstefnunni. Veiran hefur ekki náð jafn mikilli útbreiðslu í Kína í tvö ár og þetta er í fyrsta sinn sem yfirvöld hafa gripið til þess að setja á útgöngubann í héraði eins og það leggur sig síðan útgöngubann var sett á í Wuhan-héraði í upphafi faraldursins í ársbyrjun 2020.
Staðan er enn verri í Hong Kong, sem hefur hingað til nánast verið laust við veiruna, en nú greinast yfir 30 þúsund smit daglega og um 200 hafa látið lífið á degi hverjum síðustu daga. Heilbrgiðiskerfi borgarinnar er komið að þolmörkum og hefur sjúklingum verið raðað á sjúkrabörur utandyra á meðan það bíður eftir þjónustu.
Núllstefna kínverskra yfirvalda í baráttunni við COVID-19 er enn í gildi en ýmis teikn eru á lofti um vilja til að slaka á takmörkunum. Raddir þess efnis að ekki sé hægt að halda stefnunni áfram endalaust eru farnar að heyrast, sérstaklega vegna neikvæðra efnahagslegra áhrifa sem það hefur að setja á hvert útgöngubannið á fætur öðru. Sjö daga útgöngubann sem sett var á í hafnarborginni Shenzhen í síðustu viku er til að mynda talið geta valdið miklu hökti í alþjóðlegum vöruflutningum og framleiðslu á raftækjum. Og dæmin eru miklu fleiri.
Smituðum ekki lengur skylt að leggjast inn á spítala
Stefnubreytingu er farið að gæta meðal stjórnvalda, sem vilja þó fara mjög hægt í sakirnar. Í þessari viku greindi heilbrigðisnefnd Kína frá reglubreytingum þess efnis að sjúklingar með væg einkenni þurfa ekki að leggjast inn á spítala heldur verði þeim sinnt utan hans í smærri hópum. Reglur um sóttkví hafa einnig verið rýmkaðar.
„Hér áður fyrr var hver einasti sem smitaðist af veirunni lagður inn á spítala, hvort sem um var að ræða mikil eða væg einkenni,“ segir Jin Dong-yan, prófessor við háskólann í Hong Kong, í samtali við BBC. Jin segir að yfirvöld séu smám saman að gera sér grein fyrir að margir sem smitast þurfa ekki á mikilli aðhlynningu eða umönnun að halda.
Á síðasta ári sagði Zhang Wenhong, einn fremsti faraldursfræðingur Kína, að Kína yrði á endanum að marka sér þá stefnu að lifa og starfa með veirunni. Orð hans mættu harðri gagnrýni og var Zhang kallaður svikari og sakaður um að vera í vitorði með ríkjum sem vildu grafa undan aðgerðum kínverskra yfirvalda gegn faraldrinum.
Fyrsta skrefið að losna við óttann
Færsla sem Zhang birti á samfélagsmiðlum nýlega fékk hins vegar önnur viðbrögð frá yfirvöldum. Í henni segir hann að yfirvöld ættu sannarlega að viðhalda núllstefnu sinni gegn faraldrinum en á sama tíma ættu þau ekki að hræðast það að færast smám saman í áttina að langvarandi aðgerðaáætlun.
„Að losna við óttann er fyrsta skrefið sem við verðum að taka,“ segir Zhan meðal annars í færslu sinni. Þar bendir hann einnig á að ómíkron-afbrigðið sé vægara en þau sem á undan hafa komið og í löndum þar sem bólusetningarhlutfall er hátt og ákveðið hjarðónæmi til staðar sé hefðbundin flensa í raun banvænni en ómíkron-afbrigðið. Orðum faraldursfræðingsins var betur tekið í þetta sinn, hann var að minnsta kosti ekki gagnrýndur opinberlega af yfirvöldum.
Hversu lengi mun núllstefnan halda út?
Huang Yanzhong, prófessor í hnattrænni heilsu og nefndarmaður í alþjóðatengslanefnd Kína, segist skynja minnkandi stuðning almennings við núllstefnu yfirvalda. „Mín tilfinning er sú að fólk sé einfaldlega komið með nóg, sérstaklega í stærri borgum eins og Shanghai. Fólk styður núllstefnuna almennt en á sama tíma grefur útbreiðsla ómíkron-afbrigðisins undan stuðningnum.“
Stóra spurningin er hversu lengi Kína getur haldið út? Sérfræðingar telja að ekki sé von á stórum stefnubreytingum á þessu ári, sérstaklega þar sem hver smitbylgjan á fætur annarri virðist vera að ná fótfestu víðsvegar í landinu. Auk þess óttast margir að heilbrigðiskerfið ráði ekki við afléttingu sóttvarnaaðgerða og að slíkt myndi leiða til fjölda dauðsfalla, líkt og er að gerast í Hong Kong.
„Erum við tilbúin að takast á við vandann í skamman tíma með fjölgun tilfella og dauðsfalla til að öðlast stöðugleika til lengri tíma?“ spyr Huang. Sérfræðingar telja litlar sem engar líkur á að svo sé, að minnsta kosti ekki á þessum tímapunkti.