Þegar núverandi reglugerð um sóttvarnaráðstafanir innanlands, sem felur meðal annars í sér að einungis 200 manns mega koma saman og veitingastaðir og krár þurfa að vísa öllum gestum sínum út á miðnætti, rennur út þann 13. ágúst, verður hún framlengd um tvær vikur.
Þetta tilkynnti Svandís Svavarsdóttir á blaðamannafundi ríkisstjórnarinnar sem fram fór í Reykjanesbæ síðdegis í dag.
Fram kom í máli heilbrigðisráðherra að í minnisblaði sóttvarnalæknis hefðu verið færð rök fyrir því að ekki væri tímabært að aflétta gildandi takmörkunum á daglegt líf landsmanna strax í næstu viku.
Meðal annars hefði þar sagt að meira en helmingur þeirra sem væru 70 ára og eldri og hefðu smitast af COVID-19 í þessari bylgju faraldursins væru einungis á fyrstu viku veikinda og því væri ekki komin nægileg reynsla á það hvernig viðkvæmum hópum myndi reiða af vegna veikinda af völdum kórónuveirunnar.
Aðgerðirnar sem eru í gildi munu því vera við lýði til 27. ágúst, samkvæmt orðum heilbrigðisráðherra.
Skólastarf tekur mið af takmörkunum í samfélaginu
Skólastarf verður bundið sömu takmörkunum og almennt gilda í samfélaginu, þ.e. að ekki fleiri en 200 mega vera í sama rýminu.
Undantekning verður þó gerð í skólum landsins hvað grímuskyldu varðar, en nemendur sem fæddir eru 2006 og síðar þurfa ekki að bera grímu og þeir sem fæddir eru fyrr mega taka niður grímuna þegar þau setjast niður í skólastofunni.