Nýjar hagtölur staðfesta að niðursveifla, frá því sem verið hefur, er nú staðreynd í Kína. Útflutningur dróst saman um 5,5 prósent miðað við sama mánuð í fyrra sem þykir staðfesta minnkandi eftirspurn í kínverska hagkerfinu, samkvæmt umfjöllun New York Times. Samtals hefur útflutningur dregist saman um 1,4 prósent, í Bandaríkjadölum talið, á fyrstu átta mánuðum ársins.
Þetta þykja miklar og hraðar breytingar í þessu risavaxna hagkerfi og fjölmennasta ríki heims, með 1,4 milljarða íbúa af ríflega sjö milljörðum í heiminum eða sem nemur um tuttugu prósent af heildaríbúafjölda á jörðinni.
Þá hafa innflutningstölur enn fremur sýnt minnkandi eftirspurn, en yfir tíu mánaða tímabil hefur innflutningur dregist saman um fjórtán prósent.
#China's slowing growth! Both export and import growth have turned negative, with imports trailing exports. pic.twitter.com/SRkjvqOKIf
— jeroen blokland (@jsblokland) September 8, 2015
Þrátt fyrir merki um kínverska hagkerfið sé að hægja á sér töluvert hraðar en spár um sjö prósent hagvöxt á þessu ári gerðu ráð fyrir, voru umtalsverðar hækkanir á kínverska hlutabréfamarkaðnum í Shanghai í dag. Samtals lokuðu markaðir eftir 2,92 prósent dagshækkun, en framan af degi stefndi í mikla lækkun. Undir lok dagsins hækkaði vísitalan hins vegar mikið, eftir töluvert mikil viðskipti undir lok dags.
Áhyggjur af stöðu mála í Kína, og þá einkum vegna minnkandi eftirspurnar, hafa farið vaxandi að undanförnu, en kínversk stjórnvöld ákváðu í síðasta mánuði að bregðast við stöðu mála með því að veikja gjaldmiðilinn, júan, til þess að halda vöruskiptajöfnuðu í ásættanlegu horfi og ýta undir samkeppnishæfni útflutningshliðar hagkerfisins.