„Það mun draga til tíðinda fljótlega,“ segir Oddný G. Harðardóttir, 1. varaforseti Alþingis, nefndarmaður í forsætisnefnd og þingmaður Samfylkingarinnar, í samtali við Kjarnann, aðspurð hvort nýr ríkisendurskoðandi verði kosinn á Alþingi áður en þingið fer í sumarfrí.
Sérstök ráðgjafarnefnd var skipuð í byrjun apríl vegna kosningar ríkisendurskoðanda sem fyrirhuguð var í maí. Svo varð ekki en Oddný segist bjartsýn á að nýr ríkisendurskoðandi verði kosinn áður en þingi verði frestað. „Ég hef fulla trú á því,“ segir Oddný.
Þorgeir Örlygsson, fyrrverandi hæstaréttardómari, Stefán Svavarsson, löggiltur endurskoðandi, og Katrín D. Ólafsdóttir, sérfræðingur í mannauðsmálum og framkvæmdastjóri Hagvangs, skipa ráðgjafarnefnd vegna kosningar ríkisendurskoðanda. Þorgeir er jafnframt formaður nefndarinnar.
Ásamt Oddnýju hafa tveir nefndarmenn forsætisnefndar, Birgir Ármannsson, forseti Alþingis, og Líneik Anna Sævarsdóttir, 2. varaforseti, starfað náið með ráðgjafarnefndinni. Áætlað var að nýr ríkisendurskoðandi yrði kosinn í maí.
„Það eru ákveðnar reglur sem við förum eftir sem forsætisnefnd hefur sett sér þegar verið er að kjósa um ríkisendurskoðanda. Það var skipuð ráðgjafanefnd, hún gaf okkur ráð og við vinnum svo áfram með þau ráð. Forsætisnefnd kemur svo með tillögur en þetta er allt í ferli,“ segir Oddný í samtali við Kjarnann.
Starfandi ríkisendurskoðandi meðal umsækjenda
Guðmundur B. Helgason stjórnmálafræðingur er starfandi ríkisendurskoðandi eftir að Skúli Eggert Þórðarson, sem skipaður var ríkisendurskoðandi 2018, tók við embætti ráðuneytisstjóra í menningar- og viðskiptaráðuneytinu 1. febrúar.
Í kjölfarið fól forseti Alþingis Guðmundi að gegna starfi ríkisendurskoðanda þar til kosning nýs ríkisendurskoðanda hefur farið fram á Alþingi. Guðmundur Björgvin er staðgengill ríkisendurskoðanda en hann er sviðsstjóri hjá Ríkisendurskoðun og forstöðumaður skrifstofu embættisins á Akureyri. Hann var áður ráðuneytisstjóri í landbúnaðarráðuneyti og mannauðsstjóri hjá Flóttamannahjálp Sameinuðu þjóðanna í Jórdaníu.
Guðmundur er í hópi 12 umsækjenda um embætti ríkisendurskoðanda. Samkvæmt lögum mun forsætisnefnd nú gera tillögu til þingsins um einstakling til að gegna embættinu, sem svo verður kjörinn á þingfundi. Alþingi kýs ríkisendurskoðanda til sex ára í senn, en heimilt er að endurkjósa sama einstakling einu sinni.
„Þetta er skrýtinn vinnustaður“
Að sögn Oddnýjar stefnir Forsætisnefnd að því að kosið verði um nýjan ríkisendurskoðanda áður en þingi verður frestað fyrir sumarfrí. Samkvæmt starfsáætlun þingsins er síðasti þingfundur fyrir þingfrestun áætlaður á fimmtudag. Oddný telur að þingið muni starfa fram í þar næstu viku.
„Algjörlega ábyrgðarlaust, en af reynslunni, þá verður þetta klárað fyrir 16. júní, af því að þá þarf að taka til í þinghúsinu, þetta eru bara praktískar ástæður. Ég held það, en hvað veit ég, þetta er skrýtinn vinnustaður,“ segir Oddný. Auk þess segir hún stórt ágreiningsmál bíða umfjöllunar, útlendingafrumvarp Jóns Gunnarssonar dómsmálaráðherra.
„En það er auðvitað verið að vinna í því og reyna að lenda því,“ segir Oddný. Samfylking, Viðreisn og Flokkur fólksins hafa lagt fram sex ítarlegar breytingartillögur á útlendingafrumvarpi dómsmálaráðherra í því skyni að liðka fyrir samningum um þinglok. Píratar vildu ekki vera með vegna þess að þeir vilja ekki semja um málið.
Kosning nýs ríkisendurskoðanda hefur ekki áhrif á úttekt embættisins á sölunni á hlut í Íslandsbanka
Ríkisendurskoðun stefnir á að skila Alþingi sýrslu um úttekt embættisins á útboði og sölu ríkisins á hlut í Íslandsbanka í síðustu viku þessa mánaðar. „Við gerum því enn ráð fyrir að senda Alþingi skýrslu fyrir lok mánaðarins,“ segir Guðmundur Björgvin Helgason, starfandi ríkisendurskoðandi, við skriflegri fyrirspurn Kjarnans.
Hann segir kosningu nýs ríkisendurskoðanda ekki hafa áhrif á yfirstandandi verkefni embættisins.