Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir sagði á upplýsingafundi almannavarna í dag að hann teldi að núverandi sóttvarnaráðstafanir innanlands, sem eiga að vera í gildi til 27. ágúst, væru að halda fjölda smita í línulegum vexti, í stað þess að vera í veldisvexti.
Hann sagði einnig ljóst af þeim gögnum sem hefðu safnast hér saman undanfarnar vikur að þrátt fyrir að fjöldi bólusettra væru að smitast af COVID-19 væru smit á meðal óbólusettra hlutfallslega um þrefalt fleiri en hjá þeim sem eru bólusettir. Því væri bólusetningin að koma í veg fyrir hluta smita.
Frá 1. júlí hafa 64 einstaklingar þurft að leggjast inn á spítala með COVID-19 og sagði Þórólfur að hlutfallslega væru óbólusettir fjórum sinnum líklegri til þess að þurfa á innlögn að halda.
Á sama tímaskeiði hafa níu manns þurft á gjörgæslumeðferð að halda og þar af fimm þurft að leggjast í öndunarvél. Þórólfur sagði gögn sýna fram á að þeir sem er óbólusettir væru fimmfalt líklegri til að þurfa á gjörgæslumeðferð að halda, en bólusettir.
Þetta sagði Þórólfur að ætti að vera hvatning til allra til þess að fara í bólusetningu.
Meðalaldur innlagðra 64 ár en útskrifaðra 50 ár
Í máli Páls Matthíassonar forstjóra Landspítala kom fram að meðalaldur þeirra 64 einstaklinga sem hefðu lagst inn á spítalann til þessa væru 64 ár, en hins vegar væri meðalaldur þeirra sem hefðu útskrifast eftir veikindi sín 50 ár.
Það væri því eldra fólk sem núna væri inniliggjandi og reynslan sýndi að þeir eldri væru lengri að jafna sig eftir veikindi.
Útilokar ekki að leggja til hertar aðgerðir
Sóttvarnalæknir sagði frá því á fundinum að hann myndi fylgjast með stöðu Landspítala og ef neyðarkall myndi berast þaðan sæi hann sér ekki annað fært en að leggja til við stjórnvöld að gripið yrði til hertra aðgerða, sem gætu kveðið niður faraldurinn. 200 manna fjöldatakmarkanir og ýmsar aðrar aðgerðir eiga að vera í gildi til 27. ágúst, að óbreyttu.
Þórólfur sagði stöðuna í dag ekkert sérstaklega skemmtilega og honum væri ljóst að allir væru orðnir leiðir á sóttvarnaráðstöfunum. Spítalaforstjórinn lýsti því á fundinum að ekki væri ljóst hvernig næstu vikur myndu ganga.
Hann sagði að mönnunin á gjörgæslunni væri helsti vandinn sem við væri að setja og útskýrði að gjörgæslumeðferð krefðist sérhæfðra lækna og hjúkrunarfræðinga. Því hefði spítalinn biðlað til starsfólks um að koma fyrr úr sumarleyfi og hefði einnig hafið samtöl við fólk með þekkingu sem væri ekki að starfa á Landspítalanum í dag, til dæmis svæfingarhjúkrunarfræðinga sem væru að starfa utan spítalans.
Páll sagði að dæmi væru um að fólk væri að koma mjög veikt inn á spítalann, án þess að hafa áður greinst með COVID-19. Fólk hefði þannig verið með einkenni, en ekki farið í skimun.
Hann sagði að þrír af þeim níu sem hefðu þurft á gjörgæslumeðferð að halda til þessa hefðu komið beint inn á gjörgæsluna.