Áhrif á jarðminjar: Neikvæð en ekki óveruleg.
Áhrif á gróður og fugla: Neikvæð en ekki óveruleg.
Áhrif á landslag: Verulega neikvæð en ekki nokkuð neikvæð.
Áhrif á loftgæði: Nokkuð neikvæð en ekki óveruleg.
Áhrif á hljóðvist: Nokkuð neikvæð en ekki óveruleg.
Áhrif á loftslag: Einföldun að meta þau verulega jákvæð.
Náttúrufræðistofnun er ósammála niðurstöðum í nýlegri skýrslu námufyrirtækisins Eden Mining á mati á umhverfisáhrifum áformaðrar námu í Litla-Sandfelli í Ölfusi. Fyrirtækið, sem er í eigu tveggja Íslendinga, áformar að vinna allt fjallið og flytja meginþorra efnisins til útlanda þar sem það yrði notað í sementsframleiðslu.
Í umsögn sinni um skýrsluna tekur Náttúrufræðistofnun undir gagnrýni margra annarra stofnana á framkvæmdina fyrirhuguðu sem Kjarninn hefur þegar rakið.
Umhverfismatsskýrsla er með síðustu skrefunum sem fyrirtæki taka í mati á umhverfisáhrifum framkvæmda. Matið endar með áliti Skipulagsstofnunar og nokkru sinni í ferlinu er óskað eftir umsögnum frá stofnunum og athugasemdum frá almenningi.
Fyrri skref er m.a. matsskýrsla um framkvæmdina og hvað námuna í Litla-Sandfelli varðar hefur nokkur breyting orðið á frá útgáfu hennar fyrr á árinu og umhverfismatsskýrslunni sem auglýst var nú í ágúst. Aðalvalkosturinn er að vinna allt fjallið, en valkostur B, sem felst í helmingi minni vinnslu og aðallega í fjallinu vestanverðu, er í nýju skýrslunni ekki sagður standa undir sér fjárhagslega. Yrði hann fyrir valinu þyrfti „að auka efnistöku á öðrum efnistökusvæðum og jafnvel opna ný svæði til að uppfylla þá lágmarksþörf“.
Þetta er meðal þess sem Heilbrigðiseftirlit Suðurlands gagnrýnir í sinni umsögn um framkvæmdina. Ef verkefnið sé ekki fjárhagslega hagkvæmt nema aðalvalkostur verði fyrir valinu sé er valkostur B ekki raunhæfur valkostur. Að bera saman einn valkost og núllkost, þ.e. enga framkvæmd, geti ekki talist samanburður á raunhæfum kostum í skilningi laga um umhverfismat. Þar sem umhverfismatsskýrsla Eden Mining innihaldi ekki lýsingu og mat á raunhæfum kostum uppfylli hún ekki skilyrði laganna.
Ruglingslegt og ómarkvisst
Umhverfisstofnun, Náttúrufræðistofnun og Heilbrigðiseftirlit Suðurlands eru gagnrýnin á framsetningu loftslagsávinnings námuvinnslunnar eins og hún birtist í skýrslu fyrirtækisins. Þar er hún metin verulega jákvæð en um það hafa stofnanirnar sínar efasemdir og vilja nánari útskýringar. Móbergið úr Litla-Sandfelli er sagt eiga að koma í stað kolaflugösku, sem verði í framtíðinni af skornum skammti vegna áformaðra lokana á kolaverum í sumum löndum. Þannig komi hið íslenska jarðefni í veg fyrir að svokallað sementsgjall (klinker) sem hafi meira kolefnisspor verði notað.
En samdráttur í losun er greindur í samanburði við notkun klinkersins og sagður umtalsverður. Umhverfisstofnun segir þetta misvísandi, þessi meinti loftslagsávinningur sé þegar kominn fram, og Náttúrufræðistofnun telur þetta „full einfalda nálgun“. Ekki sé tekið með í reikninginn að móbergið sé ekki að koma í stað klinkersins heldur flugöskunnar. Þá sé ekki heldur gert ráð fyrir að hentugri íblöndunarefni í sement kunni að finnast nærri framleiðslustað.
Heilbrigðiseftirlitið telur að umfjöllun í umhverfismatsskýrslunni um þetta atriði sé „ruglingsleg og ómarkviss“. Ýmist sé talað um að efnið úr Litla-Sandfelli yrði staðgengilsefni kolaflugösku, aukaafurðar sem verður til við brennslu kola í orkuverum, staðgengilsefni sementsklinkers eða í stað bæði kolaflugösku og sementsklinkers.
Framkvæmdaaðili hafi reiknað út að notkun 800.000 tonna af móbergi í stað klinkers muni spara 663,2 milljón kíló af koltvíoxíði árlega „sem er vissulega umtalsvert,“ skrifar Heilbrigðiseftirlitið í umsögn sinni. „Hins vegar kemur hvorki fram hversu mikið er framleitt af sementsklinker á heimsvísu í dag né að hversu miklu leyti móbergsflugaska úr Litla-Sandfelli mun koma í staðinn fyrir áðurnefnd efni.“
Vegna þessara annmarka sé „örðugt“ að átta sig á því „hvernig komist er að þeirri niðurstöðu að heildaráhrif framkvæmdarinnar á loftslag eru metin verulega jákvæð“.
Náttúrufræðistofnun vill leggja áherslu á að þótt mikilvægt sé að Ísland leggi sitt af mörkum við að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og að notkun íslenskra jarðefna í sementsframleiðslu sé áhugavert viðfangsefni hvað það varðar, þá verði að móta skýra heildstæða stefnu byggða á greinargóðu mati þannig að tryggja megi sátt um jafnvægi sjálfbærar nýtingar og verndar. Ekki sé sjálfbært til framtíðar að ákvarðanir um efnistöku á móbergi séu teknar á forsendum stakra verkefna hjá einstökum landeigendum eða sveitarfélögum.
Til varnar Litla-Sandfelli
Stofnunin bendir á að verndargildi jarðminja á Íslandi sé mjög hátt og móbergsfjöll og vikursandar meðal sérkenna íslensks landslags. Litla-Sandfell er einstakt og ólíkt móbergsfjöllunum í nágrenninu þar sem ekki er á því grágrýtishella. Það er stuttur móbergshryggur á meðan nágrannafjöllin eru flest móbergsstapar.
„Ef fjallið hverfur verður jarðfræðin einsleitari en nú er og jarðbreytileiki minnkar,“ segir stofnunin í áliti sínu. Þá rýrir það að hennar mati ekki gildi jarðmyndunar að hún sé ekki áberandi og lítt þekkt eins og framkvæmdaaðili vilji meina en í skýrslu hans stendur að líklega geti einungis „örlítill hluti landsmanna“ bent á Litla-Sandfell á korti. Náttúrufræðistofnun kemur Litla-Sandfelli til varnar og skrifar: „Jarðmyndanir hafa eigið gildi óháð því hversu vel þær eru þekktar meðal almennings.“