Fyrirsögnin á grein þessari á sannarlega við þá hugmynd þriggja ungra manna að efna til tónlistarhátíðar á opnu svæði sunnan við Hróarskeldu í Danmörku sumarið 1971. Gestirnir á þessari fyrstu hátíð voru um eða innan við 10 þúsund, en nú er hátíðin, sem haldin er árlega, sú stærsta í Norður – Evrópu, í fyrra voru gestirnir um 130 þúsund.
Tveir þessara ungu bjartsýnismanna voru menntaskólanemar í Hróarskeldu, sá þriðji, Karl Fischer, nokkrum árum eldri og umboðsmaður hljómsveita. Hann hafði stundum útvegað hljómsveitir til að spila á menntaskólaböllum og þekkti þá Jesper Switzher og Mogens Sandfær sem báðir voru í nemendaráði skólans.
Jesper sagði frá því í viðtali fyrir skömmu að Karl hefði hringt í sig og spurt hvort þeir ættu ekki að skipuleggja tveggja daga tónlistarátíð í Hróarskeldu það sumarið. „Ég var átján ára og bjó heima hjá mömmu og pabba og sagði Karli að ég ætlaði að spyrja Mogens sem var varaformaður nemendaráðsins. Mogens þótti hugmyndin sniðug, sagðist hafa séð Woodstock í hillingum, en hann var nýbúinn að sjá kvikmyndina um þá þekktu tónlistarhátíð.“
Þrír metrar milli tjalda og ekki trufla kirkjuklukkurnar
Þriðji menntskælingurinn bættist í hópinn og næsta skref var að fá leyfi bæjaryfirvalda í Hróarskeldu. Þeir Jesper og Mogens gengu á fund eins af embættismönnum bæjarins sem og slökkviliðsstjóra og óskuðu eftir leyfi til að halda tveggja daga hátíð, laugardag og sunnudag í lok ágúst. Embættismönnunum leist vel á hugmyndina en settu tvö skilyrði: Fjarlægð milli tjalda tónleikagesta skyldi vera minnst þrír metrar og ekki mátta leika tónlist fyrr en eftir klukkan tvö síðdegis á sunnudeginum. Síðarnefnda skilyrðið var til þess að trufla ekki hringingar í kirkjuklukkum bæjarins. Hinir tilvonandi tónleikahaldarar töldu auðvelt að uppfylla þessi skilyrði. Ekkert var rætt um salerni, veitingaaðstöðu og allt það sem nú þykir tilheyra samkomum af þessu tagi.
Ætlunin var að hátíðin, sem þeir félagar kölluðu „Sound Festival“ færi fram á svæði við Hróarskeldufjörðinn, sem stundum hafði verið notað undir útiskemmtanir. Hjónum sem áttu þessa landspildu leist hins vegar miður vel á hugmyndina og þegar frúin sá þessa síðhærðu pilta sagði hún þvert nei. „Hver veit svo nema þetta séu hommar“ á hún að hafa sagt við bónda sinn.
Bæjarstjórn bauð landbúnaðarsýningasvæði
Bæjarstjórnin í Hróarskeldu bauð þá svæði í útjaðri bæjarins, sem hafði nýlega verið skipulagt til landbúnaðarsýninga, bæjarstjórnin taldi þetta henta ágætlega. Tónleikahöldurunum leist ekki sérlega vel á staðinn en áttu engra kosta völ. Búið að prenta miðana sem seldir voru á spottprís til menntskælinga. „Til að tryggja aðsóknina“ sögðu þeir félagar síðar.
Hátíðin hófst klukkan tíu um morguninn laugardaginn 28. ágúst 1971 og fljótlega fór fólk að tínast á svæðið. Ekki voru allir tilbúnir að borga aðgangseyrinn heldur hoppuðu einfaldlega yfir girðinguna. Jesper Switzer hringdi heim og fékk bróður sinn (12 ára) til að koma með nokkra stráka með sér til að reyna að passa að fólk færi inn um hliðið, en það breytti engu.
Uppúr hádeginu fór að rigna. Rigningin sá til þess að nær ekkert heyrðist í tónlistarfólkinu enda hljóðkerfið ekki burðugt. Á sunnudeginum var veðrið aftur á móti gott en þá voru margir farnir heim. Meðal þeirra sem komu fram á þessari fyrstu hátíð voru hljómsveitin Gasolin (með Kim Larsen í broddi fylkingar), Sebastian og Povl Dissing.
Fjölskyldurnar urðu að borga tapbrúsann
Þótt um tíu þúsund manns hafi komið á hátíðina var aðeins lítill hluti þess hóps sem borgaði sig inn. Kostnaðurinn reyndist miklu meiri en þeir félagar höfðu reiknað með, ekki síst hreinsunarstarfið. Á endanum urðu fjölskyldur ungu bjartsýnismannanna að hlaupa undir bagga og borga tapið. Menntskælingarnir grunuðu umboðsmanninn um að hafa stungið peningum undan en aðhöfðust ekkert vegna þess. Þeir tóku hinsvegar strax ákvörðun um að endurtaka ekki leikinn.
Þrátt fyrir að menntskælingarnir (og umboðsmaðurinn) leggðu tónleikaárarnar í bát voru bæjaryfirvöld í Hróarskeldu sannfærð um að hátíð af þessu tagi ætti framtíð fyrir sér. Góðgerðasamtökin Hróarskeldusjóðurinn tóku þá að sér að annast tónleikahaldið og hefur gert það allar götur síðan.
Allt hefur breyst nema staðurinn og stuðið
Síðan menntskælingarnir bjartsýnu héldu fyrstu hátíðina hefur margt breyst, í raun allt nema staðurinn sem alltaf er sá sami og svo stuðið á mannskapnum. Í stað pallsins (sem strákarnir kölluðu senu) eru nú átta tónleikasvið. Þekktast er Orange, appelsínugula sviðið, sem jafnframt er merki hátíðarinnar, það var keypt frá Bretlandi árið 1978 en Rolling Stones notuðu það á tónleikaferðalagi tveimur árum fyrr. Þeir endurnýja nú kynnin því þeir eru helsta tromp hátíðarinnar í ár og spila auðvitað á því appelsínugula. Þar er pláss fyrir 60 þúsund áhorfendur en samtals rúmlega 100 þúsund við sviðin átta.
Gestafjöldinn hefur fjórtánfaldast frá fyrstu hátíðinni
Þótt aðsóknin að hátíðinni hafi sveiflast nokkuð milli ára hefur sveiflan nær alltaf verið upp á við. Árið 1995 fór fjöldinn í fyrsta sinn yfir 100 þúsund og í fyrra voru gestir um 130 þúsund talsins og hafa aldrei verið fleiri. Útlit er fyrir að enn fleiri sæki hátíðina að þessu sinni ef marka má aðsóknina fyrstu dagana. Þegar hleypt var inn á svæðið á sunnudaginn voru 55 þúsund manns mætt á svæðið og kepptust um að ná sér í sem best tjaldstæði. Hróarskelduhátíðin er sú stærsta af þessu tagi á Norðurlöndum og í Evrópu er það aðeins Glastonbury hátíðin í Englandi sem dregur að sér fleira fólk.
Þótt hátíðin sé þekkt um víða veröld eru heimamenn þó í meirihluta. Raunar hefur erlendum hátíðargestum fækkað allra síðustu ár. Engar öruggar tölur eru til um fjölda þeirra Íslendinga sem sækja hátíðina að jafnaði en talið að þeir hafi iðulega verið á bilinu tólf til fimmtán hundruð. Langflestir þeirra sem sækja hátíðina eru á aldrinum sautján til þrjátíu ára, Rolling Stones eru því langt yfir meðalaldri, sá yngsti 67 ára, sá elsti 73!
Eitthvað fyrir alla
Margir tónlistarspekúlantar telja ástæðuna fyrir vinsældum Hróarskelduhátíðarinnar vera þá að þar sé eitthvað fyrir alla. Í upphafi voru flestir sem fram komu danskir en það breyttist fljótt og æ síðan hafa listamennirnir komið víða að og í þeim hópi margt þekktasta tónlistarfólk samtímans. Listinn er langur en þar er meðal annars að finna Procol Harum, Bob Marley, U2, Mike Oldfield, Simpel Minds, Metallica, Eric Clapton, Sting, Bob Dylan, Nirvana, Leonard Cohen, Sigur Rós, David Bowie, Pet Shop Boys, Robbie Williams, Coldplay, Björk, Bruce Springsten, Kraftwerk og fleiri.
Á hátíðinni hafa til þessa dags verið haldnir 4.796 tónleikar og 3.844 hljómsveitir hafa stigið á svið. Sú hljómsveit sem oftast hefur troðið upp er Gnags, en þeir félagar hafa 12 sinnum spilað fyrir gesti hátíðarinnar.
Slysið
Þegar tónleikar hljómsveitarinnar Pearl Jam stóðu sem hæst á appelsínugula sviðinu 30. júní árið 2000 varð sá hörmulegi atburður að níu tónleikagestir tróðust undir og létust og 26 til viðbótar slösuðust alvarlega. Aldrei fannst nein einhlít skýring á því sem gerðist en svo virtist sem nokkrir hefðu dottið og dregið aðra með sér, en jörðin var blaut og hál. Við þetta þrýstist hluti áhorfenda nær sviðinu og ekki varð við neitt ráðið. Skipuleggjendur hátíðarinnar gerðu strax árið eftir margháttaðar ráðstafanir til að koma í veg fyrir slys af þessu tagi.
Hróarskelda 2014
Sé rýnt í lista með nöfnum tónlistarfólks þetta árið má sjá að úr mörgu er að velja. Hljómsveitalistinn inniheldur 170 nöfn og þótt Rolling Stones, Artic Monkeys, Damon Albarn, Stevie Wonder, Drake, Major Lazer, Outkast og Trentemöller fái stærsta letrið í auglýsingum segir það ekki alla söguna. Ein íslensk sveit, tríóið Samaris er á flytjendalistanum.
Á útiskemmtunum skiptir veðrið miklu máli og reyndir Hróarskeldugestir vita að ekki er á vísan að róa í þeim efnum. Danska veðurstofan spáir prýðilegu veðri út vikuna án þess þó að ábyrgjast neitt í þeim efnum. Hvernig sem veðrið verður má slá því föstu að allir snúi heim í hátíðarskapi þegar seinasti tónninn hefur verið sleginn þetta árið.
Umfjöllunin birtist fyrst í nýjustu útgáfu Kjarnans. Lestu hana hér.