Engar opinberar sóttvarnaráðstafanir verða í gildi á Íslandi frá og með miðnætti annað kvöld. Frá þessu greindu Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra og Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra í samtali við fjölmiðla í ráðherrabústaðnum við Tjarnargötu eftir ríkisstjórnarfund, þar sem aflétting aðgerða var eina málið á dagskrá.
Fram kom í máli ráðherranna tveggja að ákveðin tilmæli til almennings, til dæmis um að halda sig heima ef einkenna er vart, verði áfram í gildi þrátt fyrir að nú falli allar aðgerðir, þar með talin skyldueinangrun þeirra sem eru með COVID-19, úr gildi.
„Við erum að endurheimta eðlilegt líf, en veiran er ennþá með okkur,“ sagði forsætisráðherra við fjölmiðla eftir ríkisstjórnarfundinn.
Notkun PCR-prófa að mestu hætt
Fyrr í dag var sagt frá því í tilkynningu frá sóttvarnalækni að notkun PCR-prófa yrði að mestu hætt hérlendis, vegna óviðunandi biðtíma á greiningu þeirra, en hann hefur verið 2-3 sólarhringar að undanförnu.
Fyrir þau sem eru með einkenni COVID-19 verður nú einungis í boði að fara í hraðgreiningarpróf, hjá heilsugæslunni eða hjá einkafyrirtækjum.
Þeir sem greinast jákvæðir á sjálfprófum/heimaprófum geta fengið greininguna staðfesta með hraðgreiningaprófi hjá heilsugæslunni eða einkafyrirtækjum, en greining hjá þessum aðilum er forsenda fyrir því að greiningin verði skráð í sjúkraskrá viðkomandi og forsenda fyrir opinberum vottorðum um smit af völdum COVID-19.
Notkun á PCR-prófum verður framvegis bundin við ábendingar lækna og þá sem eru með alvarleg einkenni eða alvarlega undirliggjandi sjúkdóma samkvæmt mati læknis. Einnig verða PCR-próf áfram í boði fyrir þá sem þurfa á neikvæðum niðurstöðum slíkra prófa að halda vegna ferðalaga erlendis en þá gegn gjaldi, samkvæmt tilkynningu sóttvarnalæknis.