Breskum yfirvöldum er heimilt að framselja Julian Assange stofnanda Wikileaks til Bandaríkjanna, samkvæmt niðurstöðu áfrýjunardómstóls í Bretlandi í dag. Með þessum dómi er fyrri niðurstöðu héraðsdóms, frá 4. janúar á þessu ári, um að ekki mætti framselja Assange til Bandaríkjanna, snúið við.
Bandaríkjastjórn fékk í sumar leyfi til að áfrýja niðurstöðunni, en upphafleg niðurstaða héraðsdómara var sú að synja bæri framsalsbeiðni Bandaríkjanna vegna andlegrar heilsu Assange, sem glímdi við sjálfsvígshugsanir.
Samfara áfrýjun Bandaríkjastjórnar, sem vill hneppa Assange í allt að 175 ára fangelsi á grundvelli 18 ákæruliða fyrir að ljóstra upp um stríðsglæpi með því að birta trúnaðargögn bandaríska hersins á Wikileaks, voru lögð fram loforð um hugað yrði að velferð Assange.
Á meðal þess sem lögfræðingar Bandaríkjastjórnar lofuðu, og varð til þess að niðurstöðu héraðsdóms var snúið, var það að Assange yrði ekki látinn sæta einangrunarvist fyrir eða eftir réttarhöld í Bandaríkjunum né að hann yrði vistaður í háöryggisfangelsi.
Lögfræðingar Bandaríkjastjórnar hafa einnig lofað því að Assange verði veitt heimild til þess að afplána fangelsisdóm, ef einhver verður, í Ástralíu, sem er heimaland hans. Þeir hafa talað um að líkleg niðurstaða í máli Assange yrði 4-6 ára fangelsisdómur, þrátt fyrir að ákæra á hendur honum feli í sér möguleikann á allt að 175 ára dómi ef refsiramminn yrði nýttur til fulls.
Ekki er ljóst á þessari stundu hvort mögulegt verður fyrir Assange og lögmenn á hans vegum að áfrýja niðurstöðunni, eða hvort hún standi sem endanleg, samkvæmt frétt BBC.
„Þessum slag lýkur ekki hér“
Kristinn Hrafnsson ritstjóri Wikileaks tjáði sig um niðurstöðuna á Twitter skömmu eftir að hún lá fyrir. Sagði hann að þessum slag myndi ekki ljúka hér. Hann minntist einnig á það að í dag, 10. desember, er mannréttindadagur Sameinuðu þjóðanna og að breski dómstóllinn hefði með ákvörðun sinni í dag bæði varpað skugga yfir rannsóknarblaðamennsku og tekið ákvörðun um að halda áfram „pyntingum“ í garð Assange.
On UN Human Rights Day a UK court throws investigative journalism into darkness and continues the torture of #Assange. This fight will not end here.
— Kristinn Hrafnsson (@khrafnsson) December 10, 2021