Breskir neytendur munu þurfa að greiða 80 prósent hærra verð fyrir orku frá og með október eftir ákvörðun orkustofnunar landsins, Ofgem, um að hækka verðþak orkufyrirtækja. Meðal kostnaður heimila vegna orkukaupa á ári gæti aukist úr um 320 þúsund íslenskra króna í um 590 þúsund, segir í frétt Euronews um málið.
Orkuverð hefur hækkað verulega síðustu mánuði í Bretlandi og víðar í Evrópu, m.a. vegna innrásar Rússa í Úkraínu. Þessar hækkanir eru meðal annarra þátta skýringin á því að framfærslukostnaður venjulegs fólks hefur rokið upp úr öllu valdi.
Jonathan Brearley, framkvæmdastjóri Ofgem, segir að hækkunin eigi eftir að hafa „gríðarleg“ áhrif á bresk heimili. Hann óttast að þegar í janúar á næsta ári muni verðið hækka enn frekar.
Gasinnflutningur frá Rússlandi er minni en hann var áður. Sama má segja um kolainnflutning. Þá hækkaði olíuverð skarpt nýverið þótt heimsmarkaðsverðið hafi nú tekið að lækka. Mörgum kjarnorku- og kolaverum hefur verið lokað í Evrópu síðustu ár til að stemma stigu við hækkandi hitastigi á jörðinni af mannavöldum. Þegar hafa nokkur þeirra verið ræst að nýju og útlit fyrir að rykið verði dustað af fleirum á næstunni.
Stríðið í Úkraínu og þvinganir sem Pútín er beittur vegna þess eru þó ekki eina skýringin á því að eftirspurn eftir orku er meira en framboðið. Heimsfaraldurinn sýndi okkur svart á hvítu hversu samfléttað hagkerfi heimsins er. Skortur á einum stað bítur ekki alls staðar strax en getur gert það með tíð og tíma. Flutningskeðjur allar fóru úr skorðum í faraldrinum og t.d. var minna unnið af kolum í Kína, einum stærsta kolaframleiðanda veraldar.
Forstjóri Ofgem segir brýnt að stjórnvöld komi breskum heimilunum til aðstoðar vegna orkukrísunnar sem við blasi. Aðgerðum hefur þegar verið beitt í þessa veru en Brearley segir að stjórnvöld þurfi að gera meira. Nýr forsætisráðherra fái það viðfangsefni í fangið.
Í frétt Euronews segir að sérfræðingar telji að árlegur orkureikningur breska heimila gæti hækkað í 970 þúsund krónur í janúar og að hann gæti farið yfir 6.000 pund, rétt tæpa milljón, í apríl.
Orkustofnunin varð að hækka hámarksverð sem orkufyrirtækin mega setja á því að heimsmarkaðsverð á gasi er í hæstu hæðum og fyrirtækin verða að hafa svigrúm til að standa undir sér.
Greining Háskólans í York á aðsteðjandi vanda vekur ekki mikla bjartsýni. Því er spáð að tæplega 60 prósent Breta gætu búið við orkuskort á næsta ári þar sem þeir hafa ekki efni á orkureikningnum.
Rýtingur í hjartað
„Hækkun Ofgem er eins og rýtingur í hjarta milljóna fólks um allt land,“ segir Simon Francis sem fer fyrir regnhlífarsamtökum sem berjast gegn fátækt. Hann sparar sannarlega ekki stóru orðin í viðbrögðum sínum. „Vegna þessarar ákvörðunar munu foreldrar ekki geta gefið börnum sínum mat, heilsu veikra og aldraðra mun hraka, fólk með fötlun mun ekki geta nýtt nauðsynlegan tækjabúnað og heimilum ýtt út í fátækt í fyrsta sinn í fleiri kynslóðir.“
Hann bendir ekki fingri aðeins að orkustofnuninni heldur segir mestu ábyrgðina hvíla hjá ríkisstjórninni. Bregðast verði þegar í stað við til að bjarga því sem bjargað verður.
Sambærilegur vandi steðjar að mörgum Evrópuríkjum, ef ekki þeim flestum, sem stólað hafa á jarðefnaeldsneyti til framleiðslu á rafmagni og til húshitunar. Á Spáni, í Portúgal, Frakklandi, Þýskalandi og Tékklandi, svo dæmi séu tekin, hafa stjórnvöld þegar gripið til einhverra aðgerða til að stemma stigu við hækkandi orkukostnaði heimila.