Einn stærsti framleiðandi pappírs í Suðaustur-Asíu, kóreska stórfyrirtækið Korindo, hefur nú verið sviptur sjálfbærnivottun samtakanna Forest Stewardship Council (FSC) vegna umfangsmikillar pálmaolíuframleiðslu sinnar sem höggvið hefur stórt skarð í regnskóga Papúa héraðs í Indónesíu. Í umfjöllun BBC um málið kemur fram að fyrirtækið hafi rutt í burtu tugum þúsunda hektara af regnskógum Papúa fyrir olíupálmaræktun sína og að greining FSC bendi til þess að eldar hafi verið bornir að skógunum af ásettur ráði. Því hafna forsvarsmenn Korindo.
Samkvæmt upplýsingum á vef Umhverfisstofnunar er í FSC vottaðri skógrækt ekki felld fleiri tré en skógurinn nær að endurnýja. Þá tryggir slík vottun að dýra- og plöntulíf sé verndað og að starfsmenn skógræktarinnar fái nauðsynlegan öryggisútbúnað og sæmileg laun. Allur pappír sem Korindo framleiðir hefur, þar til nú, haft slíka FSC vottun.
Ekkert fyrirtæki hefur yfir jafnmiklu landsvæði að ráða í Papúa héraði líkt og Korindo. Alls hefur fyrirtækið rutt um 60 þúsund hekturum af skógi fyrir ræktun sína á Papúa á því landsvæði sem það hefur nýtingarrétt. Kiki Taufik, yfirmaður Greenpeace í Suðaustur-Asíu segir það löngu tímabært að FSC svipti Korindo þessari vottun. Vandamálið sé þó ekki bundið við stórfyrirtæki, líkt og Taufik segir í samtali við BBC, því indónesísk stjórnvöld halda áfram að „veita fyrirtækjum líkt og Korindo nýtingarleyfi á skógum, og þar með rétt til þess að traðka á réttindum frumbyggja.“
Miklir hagsmunir í húfi
Olíupálmaræktun í landinu er mikið hagsmunamál fyrir yfirvöld en ekkert land í heimi flytur út meira af pálmaolíu en Indónesía. Í fyrra nam virði útfluttrar pálmaolíu frá Indónesíu um 19 milljörðum Bandaríkjadala, sem samsvarar hátt í 2400 milljörðum króna. Regnskógar Papúa höfðu þar til á síðustu árum verið ósnertir en stjórnvöld hafa í ríkari mæli opnað fyrir aðkomu fyrirtækja í héraðinu með það fyrir augum að auka hagsæld á svæðinu. Þar af leiðandi hefur ótaminn regnskógurinn þurft í miklum mæli að víkja fyrir skipulögðum röðum af olíupálmum.
Þrátt fyrir að þetta sé gert með hagsæld í huga hefur þetta haft í för með sér að fólk sem býr á svæðinu hefur þurft að breyta lifnaðarháttum sínum, líkt og rakið er í ítarlegri fréttaskýringu BBC frá því í fyrra um starfsemi Korindo á svæðinu. Það að auki hafa þær umbætur sem lofað var af fyrirtækinu þegar það fór að gera sig gildandi á svæðinu ekki orðið að veruleika.
Von á lagafrumvarpi um bann við notkun pálmaolíu
Pálmaolía er notuð í stórum stíl í alls kyns vörur sem fólk notar og kaupir jafn vel á hverjum degi, til dæmis í snyrtivörum, sápum, súkkulaði, brauði, kökum, kexi og eldsneyti. Samkvæmt svari á vef Vísindavefsins gefur um einn hektari af olíupálma af sér um þrjú tonn af pálmaolíu og 250 kíló af pálmakjarnaolíu. Svarið fjallar um hvað einstaklingar geti gert til þess að koma í veg fyrir eyðingu regnskóga. Það að sniðganga vörur með pálmaolíu er eitt af þeim atriðum sem nefnd eru í svarinu.
Í desember í fyrra var þingsályktunartillaga um ráðstafanir til að draga úr notkun pálmaolíu á Íslandi samþykkt. Ferðamála- iðnaðar- og nýsköpunarráðherra hefur því verið falið að vinna áætlun um takmörkun á notkun pálmaolíu í allri framleiðslu á Íslandi og leggja fram frumvarp um bann við notkun hennar í lífdísil. Í samþykktri tillögu segir að ráðherra skuli kynna niðurstöður og leggja fram frumvarp til laga um bann við notkun á pálmaolíu í lífdísil eigi síðar en í lok þessa árs.
Í greinargerð með tillögunni kemur fram að pálmaolía sé notuð í matvælaframleiðslu hér á landi þó að dregið hafi úr notkun hennar á síðustu árum. Aftur á móti hefur olían verið í auknum mæli verið notuð sem eldsneyti eða íblöndun í eldsneyti. Reiknað hefur verið út að lífeldsneyti frá jurtaolíu, sem er um 70 prósent af lífeldsneytismarkaði í Evrópu, losi 80 prósent meira af gróðurhúsalofttegundum en jarðefnaeldsneytið sem verið er að skipta út. „Pálmaolía trónir þar hæst og er þrisvar sinnum verri en jarðefnaeldsneyti, en næst á eftir kemur sojaolía sem er tvisvar sinnum verri,“ segir í greinargerðinni.