Flugfélagið PLAY flutti alls 9.899 farþega í júlí og seldi 41,7 prósent af öllum flugsætum sem það hafði til sölu. Sætanýting félagsins var tæplega helmingi minni en hjá Icelandair í sama mánuði, en félagið þarf að auka sölu sína töluvert til þess að standast eigin áætlun fyrir árið.
Samkvæmt tilkynningu sem PLAY birti samhliða farþegatölum sínum á vef Keldunnar fyrr í dag segir flugfélagið að árangur þess í síðasta mánuði hafi verið „mjög góður miðað við stöðuna á markaði“. Flugfélagið noti nú þrjár flugvélar sem séu allar komnar í notkun og séu að fljúga til sjö áfangastaða.
Áfangastaðirnir eru þeir sömu og félagið kynnti í fyrstu fjárfestakynningu sinni árið 2019 – Alicante, Berlín, Kaupmannahöfn, London, París og Tenerife – auk Barcelona. Í vetur verður svo flogið til tveggja áfangastaða í viðbót, Salzburg í Austurríki og Gran Canaria á Kanaríeyjum.
Farþegatölur PLAY eru nokkuð minni en hjá Icelandair, sem flutti 195.200 farþega í millilandaflugi í síðasta mánuði og var með 70,5 prósenta sætanýtingu. Af þessum farþegum voru tæplega 51 þúsund talsins tengifarþegar.
Þarf að tvöfalda sætanýtingu og sölu til að halda áætlun
Samkvæmt útboðslýsingu PLAY sem birtist fyrr í sumar reiknar flugfélagið með 71,8 prósenta sætanýtingu í ár. Til þess að þessar áætlanir standist þarf félagið að tæplega tvöfalda nýtinguna á næstu mánuðum, en hún þarf að vera að meðaltali 78 prósent frá ágúst til desember. PLAY gerir svo ráð fyrir því að sætanýting fari hækkandi með árunum og verði komin upp í 89 prósent árið 2025.
Í tilkynningu PLAY sem birt var í dag kemur þó fram að sætanýtingin í júlí hafi verið í takt við væntingar fyrir fyrsta rekstrarmánuð flugfélagsins.
Líkt og útboðslýsingin greinir frá hefur sætanýtingin mikil áhrif á lausafjárstöðu félagsins. Ef spáð sætanýting verður sex prósentum lægri en flugfélagið býst við á næstu þremur árum gæti lausafé þess minnkað um meira en helming.
Alls telur félagið að 143 þúsund sæti muni seljast í ár, en til þess að sú spá gangi upp þarf félagið að flytja að meðaltali 26 þúsund farþega á mánuði frá ágúst til desember.