Petro Porosjenkó, forseti Úkraínu, segir Rússa enn ógna Úkraínu með öllum hermætti sínum þó nokkrir rólegir dagar hafi nú liðið í átökum úkraínskra stjórnvalda við aðskilnaðarsinna austast í landinu. Reuters greinir frá þessu.
Þetta lét forsetinn hafa eftir sér eftir ríkisstjórnarfund í dag, sem haldinn var í skugga slitnandi samsteypustjórnar og versnandi lífsgæða almennings í Úkraínu. Porosjenkó segir Rússa vilja „kæfa efnahag ríkisins og koma honum úr jafnvægi“ með banni sínu á innflutning úkraínskra matvæla. Þá hefur Úkraínu ekki tekist að semja við Rússa um verðmyndun gass úr austri með þeim þeim afleiðingum að gasbirgðir Úkraínu eru litlar fyrir komandi vetur.
Stjórnvöld í Kreml þrýsta nú á stjórn Porosjenkó að borga þriggja milljarða dollara skuldabréf að fullu í desember. Með því hafa Rússar skilið sig frá öðrum lánadrottnum stjórnvalda í Kænugarði sem hafa allir slegið af endurgreiðslukröfum sínum. Úkraína glímir við mikinn erlendan skuldavanda og hafa undanfarna mánuði átt í viðræðum við lánadrottna sína. Í lok ágúst tókst stjórnvöldum að semja um skuldbreytingu 18 milljarða dollara.
Petro Porosjenkó var í Brussel nýverið þar sem hann ræddi meðal annars við Donald Tusk, forseta framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins. Úkraína hefur í auknum mæli leitað á náðir vestrænna ríkja í stað Rússlands. Það er meðal annars ástæða þess að átök brutust út í Úkraínu í byrjun árs 2014.
Enn er haldið í vopnahléssamkomulag sem gert var við aðskilnaðarsinna í Austur-Úkraínu, þó áfram hafi verið barist. Undanfarna daga hefur verið hljóðlátara; sprengjur og byssukúlur eru hættar að rigna yfir víglinuna. Porosjenkó telur sig hins vegar vita að Rússar eigi eftir að leggja til atlögu og beita her sínum í átökunum. „Ég er viss um að helsta ógnin nú sé stórsókn Rússlands,“ sagði hann.
Aðskilnaðarsinnar í austurhluta Úkraínu er taldir fá stuðning rússneska hersins í baráttu sinni um yfirráð í austari héruðum Úkraínu sem eiga landamæri að Rússlandi. Stjórnvöld í Kænugarði halda því fram að Rússar skaffi aðskilnaðarsinnum vopn og að hugsanlega taki rússneskir hermenn þátt í átökunum.