Í dag gefst gestum Art Institue of Chicago kostur á að berja Obama hjónin augum eða í það minnsta opinberar portrettmyndir sem málaðar voru af þeim hjónum eftir að embættistíð Barracks Obama lauk. Safnið í Chicago er fyrsti viðkomustaður af fimm í ellefu mánaða langri reisu sem málverkin eiga nú fyrir höndum en þau hanga alla jafna uppi í National Portrait Gallery (NPG) í höfuðborg Bandaríkjanna, Washington D.C., en safnið er eitt af söfnum Smithsonian stofnunarinnar.
Þetta er jafnframt í fyrsta sinn síðan myndirnar voru afhjúpaðar árið 2018 sem þær eru sýndar hlið við hlið. Mynd Barracks hefur verið hluti sýningar í NPG sem samanstendur af myndum af forsetum Bandaríkjanna. Mynd Michelle hefur aftur á móti verið sýnd við hlið annarra mynda af forsetafrúm.
Í umfjöllun Washington Post segir að aðsóknarmet hafi verið slegið í NPG eftir að portrettmyndunum var komið fyrir í sýningarsölum þess árið 2018 en það ár sóttu 2,3 milljónir gesta safnið heim, milljón fleiri en árið áður. Gestir safnsins árið 2019 voru alls 1,7 milljónir.
„Margt fólk heimsótti National Portrait Gallery í fyrsta sinn í kjölfar þeirrar athygli sem portrettin nutu. Fólk kom til þess að sjá myndirnar en dvaldi svo í safninu til þess að skoða allt hitt,“ er haft eftir Kim Sajet, safnstjóra NPG, í frétt Artnet News. Vonir standa til að sú hylli sem myndirnar njóta muni trekkja fólk að á söfnunum þar sem myndirnar verða sýndar.
Forsetahjónin fóru á sitt fyrsta stefnumót í safninu
Líkt og áður segir staldra myndirnar fyrst við í Art Institute of Chicago. Það má segja að það sé viðeigandi enda er Michelle fædd og uppalin í borginni og Barrack hefur búið þar stóran hluta ævi sinnar. Fram kemur í umfjöllun Washington Post að Obama hjónin hafi heimsótt Art Institute of Chicago á sínu fyrsta stefnumóti. Starfsfólk safnsins í Chicago á von á miklum fjölda gesta en nú þegar er svo gott sem uppselt á sýningu safnsins út júní.
Því næst halda myndirnar til New York þar sem þær verða til sýnis í Brooklyn Museum. Næsti viðkomustaður þar á eftir er Los Angeles County Museum of Art, þá fara myndirnar í High Museum of Art í Atlanta og að lokum verða myndirnar sýndar í Museum of Fine Arts í Houston.
Sýningarstaðirnir voru meðal annars valdir vegna tenginga við forsetahjónin annars vegar og við listamennina hins vegar. Kehinde Wiley sem málaði myndina af Barrack er fæddur í Los Angeles en starfar nú í Brooklyn en Amy Sherald sem málaði Michelle ólst upp í Georgíu ríki og stundaði sitt listnám í Atlanta.
Alls verða myndirnar á flakki í um ellefu mánuði en þær munu verða til sýnis á hverjum viðkomustað í um tvo mánuði. Eftir að reisunni lýkur næsta sumar halda þær svo heim á leið til höfuðborgarinnar. „Við munum sakna þeirra. Við höfðum heyrt af því að fólk hafði ráðgert að fara í frí til Washington bara til að sjá myndirnar,“ segir Sajet safnstjóri NPG við Washington Post. „Við munum halda veglega veislu til að fagna heimkomu þeirra í júní árið 2022.“