Íþróttasambandið Major League Quidditch (MLQ) hefur ákveðið að breyta nafni íþróttarinnar sem stunduð er innan vébanda sambandsins í Quadball. Íþróttin er upprunnin úr bókum J.K. Rowling um galdrastrákinn Harry Potter. Leikmenn þjóta um loftið á kústsköftum í bókum Rowling en í raunheimum eru leikmennirnir öllu jarðtengdari þó svo að kústsköftin séu til staðar.
Ástæður þess að nafni íþróttarinnar eru af tvennum toga. Kvikmyndaframleiðandinn Warner Bros. á í raun vörumerkið Quidditch. Warner Bros. hefur ekki sett sig upp á móti nafninu en staðan hefur engu að síður haft hamlandi áhrif á vaxtarmöguleika greinarinnar og staðið í vegi fyrir því að hægt sé að gera samninga um sjónvarpsútsendingar og kostunarsamninga.
Forsvarsfólk MLQ segir einnig að Quadball hreyfingin vilji fjarlægja sig höfundinum J.K. Rowling, sérstaklega í ljósi yfirlýsinga hennar og skoðanaskipta um kynvitund og réttindi trans fólks á nýliðnum árum. Frá þessu er greint á vef New York Times.
Þúsundir iðkenda í tugum landa
Nafnið Quadball vísar í það að í íþróttinni er notast við fjóra bolta og í henni eru fjórar stöður. Sóknarmenn reyna að skora mörk með bolta sem nefnist tromla en markið ver gæslumaður. Varnarmenn reyna að senda rotara á sóknarmennina en tveir rotarar eru í umferð. Þessir rotarar eru ekki jafn höggþungir og nafnið gefur til kynna, eru einfaldlega brenniboltar. Loks er það leitarinn sem reynir að ná gullnu eldingunni.
Á vef Alþjóðlega Quidditch sambandsins segir að þúsundir leggi stund á íþróttina í yfir 40 löndum. Löndin eru ef til vill fleiri en það, Ísland er til að mynda ekki aðili sambandsins enda er hér á landi ekki starfandi Quidditch samband. Íþróttin hefur þó verið stunduð hér af liðinu Reykjavík Ragnarök sem meðal annars tók þátt í Norðurlandamótinu í Quidditch árið 2018.
Fjarlægja sig galdrastráknum
Ummæli J.K. Rowling um trans fólk sem hún hefur látið falla, til að mynda á samfélagsmiðlinum Twitter, hafa vakið mikla athygli á síðustu árum og fyrir tveimur árum sendi hún frá sér ritgerð þar sem hún fjallar meðal annars um áhyggjur hennar af aukningu á kynleiðréttingum.
Baráttufólk fyrir réttindum trans fólks hefur sagt Rowling vera transfóbíska og aðdáendur bókanna um Harry Potter hafa margir hverjir átt erfitt með að samrýma ást sína á bókunum og andstöðu sinni við skoðanir höfundarins, líkt og sagt er frá í grein New York Times.
Jack McGovern, talsmaður MLQ og Bandaríska Quidditch sambandsins segir að tengslin milli Quidditch og Rowling hefðu gert aðildarfélögum erfitt með að fjölga iðkendum. Hann segist einni ekki vita hversu mikið íþróttin Quadball mun gera úr tengslum sínum við galdrastrákinn Harry Potter þegar fram líða stundir.