Guggenheim safnið í Bilbao hefur hrint af stað fjáröflun til þess að fjármagna viðgerðir á einu frægasta listaverki safnsins, Hvolpnum eftir Bandaríska listamanninn Jeff Koons. Hvolpurinn er tólf metra hár skúlptúr sem samanstendur af hinum ýmsu blómategundum, til að mynda begóníum, tóbakshornum, brúðaraugum og flauelsblómum. Útlit listaverksins tekur reglulega breytingum en blómunum er skipt út tvisvar á ári. Listaverkið er meðal þekktustu kennileita borgarinnar og það sama má segja um safnbygginguna sem hönnuð er af Frank Gehry.
Stefnt er að því að safna 100 þúsund evrum, tæpri einni og hálfri milljón króna, til þess að hægt sé að ráðast í þarfar endurbætur á þeim hluta verksins sem alla jafna er falinn handan við litríkt blómskrúðið. Undir blómunum er burðarvirki úr stáli auk sérstaks fráveitukerfis.
„Ysti hluti verksins er í frábæru ástandi og honum hefur ekkert hrakað,“ er haft eftir Ainhoa Sanz, yfirforverði safnsins, í umfjöllun The Guardian um listaverkið. Engu að síður hefur fráveitukerfi listaverksins farið að leka svo því þarf að skipta út ásamt hluta af stálinu í grind verksins.
Listaverk og lóðréttur blómagarður
Að sögn upplýsingafulltrúa safnsins, Begoña Martínez Goyenaga, er þetta í fyrsta skipti sem safnið aflar fjármuna með þessum hætti. „Við ákváðum að notast við hópfjármögnun vegna þess að verkið er svo þekkt og dáð, það er mikið ljósmyndað og orðið að táknmynd fyrir borgina svo við vildum gefa öllum þeim sem elska Hvolpinn tækifæri til þess að taka þátt í viðgerðunum á þessu listaverki sem jafnframt er lóðréttur blómagarður.“
Listaverkið var fyrst sýnt í borginni Kassel í Þýskalandi árið 1992 í tengslum við listahátíðina Documenta sem þar er haldin á fimm ára fresti. Verkið var síðan endurreist við höfnina í Sydney árið 1995. Solomon R Guggenheim stofnunin festi loks kaup á verkinu árið 1997 fyrir safnið í Bilbao en það opnaði í október það sama ár. Síðan þá hefur Hvolpurinn staðið við inngang safnsins og boðið gesti þess velkomna.