Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið tekur ekki undir þá afstöðu Landsvirkjunar að ákvörðun verkefnisstjórnar 3. áfanga rammaáætlunar hvað varðar virkjunarkostinn Kjalölduveitu hafi verið ólögmæt. Telur ráðuneytið fullyrðingar fyrirtækisins, sem fram eru settar í umsögn við þingsályktunartillögu að rammaáætlun, um að Kjalölduveita hafi ekki fengið „lögmæta skoðun faghópa“, ekki standast skoðun. Þar af leiði séu fullyrðingar Landsvirkjunar um að stjórnin hafi ákveðið „einhliða að ekki skyldi fjallað um virkjunarkostinn“ og að honum hafi verið „raðað beint í verndarflokk án umfjöllunar faghópa“ einnig rangar. Að mati ráðuneytisins hlaut virkjunarkosturinn fullnægjandi umfjöllun.
Þingsályktunartillaga að þriðja áfanga rammaáætlunar er nú komin til þinglegrar meðferðar í fjórða sinn á rúmlega fimm árum. Núgildandi rammaáætlun, þar sem virkjanahugmyndir eru flokkaðar í nýtingar-, bið- og verndarflokk, er frá árinu 2013 og er því orðin níu ára gömul. Verkefnisstjórnir næstu tveggja áfanga hafa lokið störfum og stjórn þess fimmta þegar hafið störf.
Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnar Vinstri grænna, Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks er að finna loforð um að lokið verði við þriðja áfangann. Því er hins vegar bætt við í sömu setningu að fjölga eigi kostum í biðflokki. Hægt er að hreyfa við flokkuninni svo lengi sem Orkustofnun hefur ekki gefið út virkjanaleyfi fyrir kosti í nýtingarflokki eða svæði í verndarflokki hafi verið friðlýst.
Um 80 kostir í jarðvarma, vatnsafli og vindorku eru flokkaðir í þrennt í tillögunni sem nú er til umfjöllunar í umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis, og byggir hún alfarið á niðurstöðu verkefnisstjórnar áætlunarinnar sem skilaði af sér lokaskýrslu í ágúst árið 2016.
Landsvirkjun telur hins vegar ákvörðun verkefnisstjórnarinnar um að raða Kjalölduveitu í verndarflokk ekki í samræmi við lög. Stjórnin hafi tekið stjórnvaldsákvörðun sem hún er ekki bær að lögum til að taka með því að raða kostinum „beint í verndarflokk án umfjöllunar faghópa“. Var það gert á þeim rökum að Kjalölduveita væri breytt útfærsla Norðlingaölduveitu sem væri þegar í verndarflokki, að sama vatnasvið, Þjórsárver, væri undir í báðum tilvikum.
Landsvirkjun óskar eftir því að Kjalöldu verði raðað í biðflokk í meðförum Alþingis.
Fjallað um kostinn samkvæmt vel skilgreindri aðferðafræði
Nú um miðjan mars var óskað eftir afstöðu umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins til tveggja kafla í umsögn Landsvirkjunar við þingsályktunartillöguna. Annars vegar um að afmörkun landsvæða væri ekki í samræmi við lög og hins vegar um lögmæti ákvörðunar verkefnisstjórnar um flokkun Kjalölduveitu.
Hvað varðar það síðarnefnda rökstyður ráðuneytið svar sitt, sem birt hefur verið á vef Alþingis, m.a. með vísan til bréfa formanna faghópa verkefnisstjórnarinnar frá árinu 2015. Þar kemur fram að þeir hafi tekið Kjalöldu til umfjöllunar og metið hann samkvæmt viðurkenndri og vel skilgreindri aðferðafræði. Rifjað er upp að fjöldi virkjunarkosta sem Orkustofnun sendi verkefnisstjórninni til umfjöllunar hafi verið slíkur að hvorki tími né fjárhagur hefðu nægt til að fjalla um þá alla.
Verkefnisstjórnin óskaði hins vegar eftir því að faghóparnir legðu mat á hvort líta bæri á Kjalölduveitu sem nýjan kost eða hvort þar væri fyrst og fremst um að ræða nýja útfærslu á Norðlingaölduveitu.
Faghóparnir fóru yfir þau gögn sem fylgdu Kjalölduveitu, hver út frá sinni aðferðafræði og skiluðu að þeirri meðferð lokinni niðurstöðum sínum til verkefnisstjórnar.
„Í ljósi ofangreinds og fyrirliggjandi gagna getur ráðuneytið ekki tekið undir þá afstöðu Landsvirkjunar að ákvörðun verkefnisstjórnar hvað varðar Kjalölduveitu hafi verið ólögmæt.“
Víðtæk áhrif friðunar vatnasviða
Í umsögn Landsvirkjunar um tillögu að rammaáætlun 3 kemur einnig fram að fyrirtækið telji verkefnisstjórnina ekki hafa heimild til að setja heil vatnasvið í verndarflokk og þar með alla virkjunarkosti á viðkomandi vatnasviði eins og gert var varðandi kosti fyrirtækisins í Skjálfandafljóti annars vegar og í Skagafirði hins vegar. Þegar virkjunarhugmyndirnar voru hannaðar og lagðar inn í rammaáætlun hafi ekki verið gert ráð fyrir að áhrifin yrðu svo víðtæk. Gera verði kröfu um að ákvarðanir sem hafa slík áhrif séu byggðar á skýrum lagaákvæðum.
Ráðuneytið bendir á í svari sínu að samkvæmt lögum um verndar- og orkunýtingaráætlun sé það hlutverk verkefnisstjórnar að vinna drög að tillögum um flokkun virkjunarkosta og afmörkun virkjunar- og verndarsvæða í samræmi við flokkunina. Þá segi einnig í lögunum að verkefnisstjórn fjalli um virkjunarkosti og þau landsvæði sem viðkomandi virkjunarkostir hafa áhrif á að hennar mati. „Það kemur því skýrt fram í lögunum að það er verkefnisstjórnar að meta hvaða landsvæði virkjunarkostur hefur áhrif á og gera tillögur að afmörkun virkjunar- og verndarsvæða,“ segir í svari ráðuneytisins sem vísar m.a. í greinargerð frumvarpsins þar sem segir að virkjunarsvæði í vatnsafli miðist almennt við allt vatnasvið fallvatnsins ofan þeirrar virkjunar sem nýtir fallið neðan virkjunar en að hins vegar kemur til álita að vernda heil vatnasvið.
„Verkefnisstjórnin hefur því heimildir til að afmarka svæðin eins og hún telur nauðsynlegt, þ.m.t. heil vatnasvið eða vatnasvið að hluta og leggja til að þau svæði verði sett í verndarflokk,“ segir í svari umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins. „Með vísan til ofangreinds getur ráðuneytið ekki tekið undir það mat Landsvirkjunar að afmörkun landsvæðanna sé ekki í samræmi við lög um verndar- og orkunýtingaráætlun.“
Þeir virkjanakostir sem Landsvirkjun áformar að virkja næst eru allir í nýtingarflokki samkvæmt núgildandi rammaáætlun. Þetta eru Hvammsvirkjun í Þjórsá (93 MW), virkjanir á veituleið Blöndu (28 MW) og stækkun Þeistareykjavirkjunar.