Fyrirtækið Johnson & Johnson ætlar í vikunni að sækja um leyfi hjá Matvæla- og lyfjastofnun Bandaríkjanna (FDA) til að gefa örvunarskammt af bóluefni fyrirtækisins sem kennt er við dótturfyrirtækið Janssen. Þeir sem fengið hafa bóluefnið hér á landi hefur frá því í byrjun ágúst staðið til boða að fá örvunarskammt með öðru bóluefni. Bæði Moderna og Pfizer hafa fyrir nokkru sótt um sambærilegt leyfi til FDA og stjórnvöld og stofnanir vestanhafs hafa þegar hvatt ákveðna hópa sem fengið hafa þau bóluefni til að fara í örvunarbólusetningu. Yfirvöld í Bandaríkjunum hafa ítrekað sagt að vörn allra þriggja bóluefnanna sé góð en einnig bent á að líklegast kæmi að þörf á endurbólusetningu að einhverjum tíma liðnum.
Yfir 15 milljónir Bandaríkjamanna hafa fengið bólusetningu með Janssen. Nýjustu rannsóknir sóttvarnastofnunar Bandaríkjanna (CDC) benda til að að efnið, sem gefið er í einni sprautu, veiti aðeins 71 prósent vörn gegn sjúkrahúsinnlögn vegna COVID-19 á meðan Pfizer-efnið veitir 88 prósent vörn gegn slíku og efni Moderna 93 prósent.
Johnson & Johnson hefur einnig nýverið birt niðurstöður rannsóknar sem sýnir meiri vörn. Hún náði til tveggja milljóna manna og samkvæmt henni veitir einn skammtur af Janssen-bóluefninu 81 prósent vörn gegn innlögn á sjúkrahús. Þá sýni rannsóknir einnig að með því að gefa annan skammt af bóluefninu tveimur mánuðum eftir þann fyrsta aukist vörnin gegn því að fá einhver einkenni af COVID-19 í 94 prósent.
Hafa samþykkt örvun viðkvæmra
Um miðjan október mun óháð nefnd sérfræðinga á vegum FDA koma til fundar til að ræða hvort að gefa eigi örvunarskammt af Janssen-efninu. Sá fundur var ákveðinn áður en að framleiðandinn sótti um leyfi fyrir slíku.
Bæði FDA og CDC hafa samþykkt að bjóða viðkvæmum hópum, þar á meðal öldruðum, örvunarskammt af Pfizer. Sambærileg tilkynning varðandi örvun bóluefnis Moderna er talin væntanleg á næstunni.
Joe Biden Bandaríkjaforseti hefur rekist á veggi í bólusetningarherferð sinni. Um miðjan júlí átti samkvæmt áætlun að vera búið að bólusetja um 75 prósent fullorðinna en hlutfallið er enn innan við 60 prósent. Faraldurinn hefur síðustu vikur verið í uppsveiflu í þeim ríkjum landsins þar sem bólusetningarhlutfallið er lægst. Merki eru nú um að hann sé á niðurleið og hefur sjúkrahúsinnlögnum t.d. almennt fækkað.